Það hriktir í valdinu vegna ótta

Að eyða ekki orðum á eitthvað er mikið tekið hér á landi.

Að eitthvað þyki ekki svaravert, er önnur heimspeki.

\"Þessi ummæli dæma sig sjálf,\" heyrist líka oft.

\"Vísa þessu til föðurhúsanna,\" heyrist oft í fréttamáli án þess að rök séu lögð fram með þeim föðurhúsum. Það er hins vegar oft býsna stutt milli feðraveldis og föðurhúsa. Í frekum körlum heyrist hæst, oftast er vitnað til þeirra, valdamikilla og frekra karla. Þegar þeim er ekkert niðri fyrir eyða þeir ekki orðum á eitt né neitt, makráðir sem þeir eru, en þegar valdakarlar þurfa heilu opnurnar undir vopnabúrið sitt, andsvörin, ófrægingarherferðir, þá eru þeir hræddir!


Nú hefur ein kona unnið sér það til glæps í huga ritstjóra Morgunblaðsins að hugsa sig um í nokkra daga eftir að skoðanakönnun mældi miklar vinsældir við þá hugmynd að hún yrði forseti Íslands. Það kallaði á heilt Reykjavíkurbréf. Davíð Oddsson er hræddur, hann er ógurlega hræddur. Sennilega endurómar ótti hans hræðslu eigenda blaðsins sem greiða honum launin. Orðum skal eytt sem aldrei fyrr, nú er nóg til af þeim og engin föðurhús að þvælast fyrir.
Hver örin hefur verið send á loft síðustu daga. Minnir dálítið á hinar eitruðu pillur sem Þóra Arnórs og eiginmaður hennar máttu þola síðast þegar valdhafar voru hræddir um að missa spón úr aski sínum.

Ballið er byrjað. Ballið á Bessastöðum er byrjað en ekki munu allir ganga prúðbúnir til leiks í þeirri hátíð.
Katrín Jakobsdóttir hefur vegna skeytanna úr Hádegismóum fengið nýja ástæðu til að fara fram. En fyrir okkur hin er ótti Davíðs Oddssonar stærsta fréttin. Óttinn sýnir að .það hriktir í stoðum frekju- og hefðarvaldsins á landinu. Kannski vegna þess að þeir sem eru vanir að ráða hér sjá fram á breytta veröld, að hagsmunum og gæðum verði e.t.v. skipt upp með nýjum og réttlátari hætti í framtíðinni og að þar kunni sjálfstæður forseti að reynast mikil ógn.

Upp er runninn spennandi tími og þá ekki síst fyrir þá sem hafa áhuga á óttastjórnun, óttastjórnendum og svo óttaslegnum stjórnendum.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst Í Kvikunni á hringbraut.is)