Fjármálaráðherra náði að stinga upp í Drífu Snædal með eftirminnilegum hætti á fundi Landsbankans í vikunni. Nýkjörinn forseti ASÍ var frekar seinheppin þegar hún sagði í pallborðsumræðum á fundinum:
„Við erum að leita leiða til þess að fólk geti lifað af launum sínum. Við viljum ekki endilega að fitulagið fái sem mest.“
Bjarni Benediktsson sagði að honum þætti verkalýðshreyfingin sundruð í kröfugerð sinni. Drífa Snædal kom þá með þetta vanhugsaða innlegg: „Þetta slagorð að meta menntun til launa, ég næ ekkert alltaf utan um það slagorð. Ég veit ekki hvað það þýðir.“
Fjármálaráðherra var snöggur til og greip þetta dauðafæri sem forseti ASÍ gaf á sér: „Ég held að ljósmæður gætu svarað því hvað þær eiga við þegar þær segja metum menntun til launa.“
Æ,æ. Forseti ASÍ féll á fyrsta prófinu. En er ekki fall fararheill?
Svo vaknar spurningin: Ætli Drífa nái þá ekki heldur utan um alla þessa starfsmenntasjóði sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp á löngum tíma og ráða yfir milljörðum króna? Skipta þeir þá engu máli, ef menntun og öflun þekkingar hjálpar ekki til við að auka launatekjur fólksins? Er þá til einskis að halda námskeið og auka starfsréttindi launþega með stuðningi starfsmenntasjóðanna?
Nýr forseti ASÍ verður að svara því hvort starfsmenntasjóðirnir séu óþarfir og þjóni ekki öðrum tilgangi en að vera hluti af peningavaldi verkalýðsforystunnar.
Rtá.