Jóhannes Felixson, hinn landskunni bakari og sælkeri með meiru, sem alla jafna er kallaður Jói Fel, hefur ekki gert neitt annað frá því að hann man eftir sér en að baka og elda. Ástríða Jóa er bakstur og eldamennska og í eldhúsinu líður honum best. Í þættinum Matur og Heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar Jóa Fel í Listhúsið við Engjateig þar sem Jói stendur í ströngu og er að undirbúa opnun á nýjum veitingastað.
„Ég hef ekki gert neitt annað frá því að ég man eftir mér en að baka og elda. Nú fæ ég að spreyta mig á að elda og baka á sama staðnum og að láta drauminn rætast,“ segir Jói og ástríðan skín úr andliti Jóa.
Nýi staðurinn heitir Felino og sviptir Jói hulunni á bak við nafnið í þættinum í kvöld. Jói er mjög spenntur að opna nýja staðinn sinn og leggur mikinn metnað í matseðilinn. „Þetta verður matsölustaður með ítölsku ívafi, ítalskur matur eins og ég sé hann fyrir mér. Ekki fullkominn ítalskur staður enda eru þeir nær eingöngu til á Ítalíu. Það verður bakarí á staðnum þar sem við munum laga pítsudeigið úr 20 ára gömlum súr. Ekkert ger eða aukaefni verða sett í deigið. Svo mun ég baka súrdeigsbrauð og vera með samlokur með ítölsku áleggi og að sjálfsögðu allar mínar fínu, góðu, flottu kökur. Þannig að það má segja að þetta verði léttur og fjölbreytilegur veitingastaður með kaffihúsi á daginn.“
Sjöfn fær að njóta matarupplifunnar hjá Jóa Fel með ítölsku ívafi sem erfitt er að standast. Áhorfendur verða ekki sviknir af því sem koma skal.
Þátturinn Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar er sýndur klukkan 19.00 og fyrsta endursýning er klukkan 21.00 í kvöld.