Draugur gunnars birgissonar vakinn upp í kópavogi. sjálfstæðisflokkurinn klofinn

Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi er klofinn í herðar niður. Menn héldu að átök fylkinga Ármanns bæjarstjóra og Gunnars Birgissonar væru liðin tíð. En svo virðist ekki vera.

Síðustu fjögur ár hefur Ármann haft góð tök á stöðunni í farsælu samstarfi við Teódóru Þórðardóttur og BF. Þau lýstu því bæði yfir fyrir kosningar að flokkar þeirra ættu að halda áfram meirihlutasamstarfi í Kópavogi ef þeir hefðu afl til þess. Sú varð raunin.

Eftir kosningar kemur svo á daginn að þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks eru andvígir þessu samstarfi - en héldu því leyndu fyrir kosningar. Það eru óheiðarleg vinnubrögð gagnvart kjósendum og rýtingsstunga í bak Ármanns bæjarstjóra. Talið er að Gunnar Birgisson hafi náð að spana Margréti, Karen og Guðmund upp í þessi átök við Ármann og félaga hans í flokknum.

Svo virðist sem vargöld í anda Gunnars Birgissonar sé gengin í garð að nýju í Kópavogi.

Hugsanlega er ennþá gott að búa í Kópavogi en það er greinilega vont að semja í Kópavogi!

Framsóknarflokkurinn tapaði meira en þriðjungi fylgis í kosningunum og Birkir Jón Jónsson komst naumlega inn. Nú virðist eiga að reyna að mynda meirihluta með honum sem yrði minnsti mögulegi meirihluti milli hans og klofins Sjálfstæðisflokks.

Ekki er hægt að spá slíkum hallærismeirihluta langlífi. Það gæti orðið líflegt í Kópavogi næstu fjögur árin; mikið fjör, margir meirihlutar og margir bæjarstjórar.

“Bræður munu berjast”, sagði í Völuspá. Líklegt að það gangi eftir í Kópavogi.

Rtá.