Í gærkvöldi fékk Jóhanna Heiðdal Harðardóttir mjög alvarlegt ofnæmiskast og komst þá að mikilvægi þess að geta treyst á aðra í aðstæðum sem þessu.
„Ég fattaði hversu mikilvægt það er að geta treyst á aðra þegar maður getur það engan veginn sjálfur. Ég er einmit að fara að kenna átta ára syninum á eftir hvernig eigi að bregðast við og sýna honum hvar slökkvitækið, eldvarnarteppið og annað er á heimilinu ef eitthvað kæmi uppá,“ segir Jóhanna í samtali við Hringbraut.
Efnasamsetning sem ofsakar ofnæmisköstin
„Ég byrjaði að fá ofnæmisköstin fyrir 5 árum en ekki hefur tekist að finna út nákvæmlega fyrir hverju ég hef ofnæmi þar sem það er ekki bara eitt heldur efnasamsetning sem orsakar köstin,“ segir Jóhanna og greinir frá því að sífellt færist niðurstaðan þó nær þar sem hægt er að tengja saman hvað hún er að borða hverju sinni.
„Í gær var kastið verra og alvarlegra en áður þar sem það gerðist svo hratt og ég gat ekki hjálpað mér sjálf nema jú ég náði að kalla á dóttur mína, Mariu Teresu, sem með snörum handtökum og rökhugsun bjargaði lífi mínu. Við erum nýflutt í 3ja hæða hús og ég er ekki búin að koma lyfjum fyrir á öllum hæðum til að auðvelda mér þegar þetta gerist en blessunarlega var ég uppi á efstu hæð og hún inni í næsta herbergi með ofnæmislyf og gat komið þeim til mín strax,“ segir Jóhanna.
Jóhanna Heiðdal / Mynd: Aðsend
Jóhanna hafði rétt svo þrek til þess að skríða upp í rúm dóttur sinnar og biðja hana um aðstoð.
„Ég fann strax að hálsinn var að þrengjast og augun stokkbólgin, brunatilfinning í höndum, hársverði og líkaminn allur að dofna og já ég var eldrauð eins og tómatur. Hjartað fór líka á milljón og ég hafði rétt svo þrek til að skríða upp í rúmið hennar. Ég bað hana um að ná í Epi pennann minn og lesa leiðbeiningarnar vel, ég mundi óljóst hvar penninn var en hún mundi það og las á hann, sagði svo róleg: „Já þetta er ekkert mál mamma.“ Það gaf mér kraft til að geta verið róleg og einbeitt mér að anda og róa hjartað til að fara ekki einfaldlega í hjartastopp.
Gat varla hreyft sig né tjáð
Fljótlega sá Maria að einkenni móður hennar voru ekki að lagast og gaf hún henni aðra ofnæmistöflu.
„Þegar þarna var komið gat ég varla hreyft mig né tjáð. Hún kallaði líka á Ómar Freyr maninn minn og saman vöktu þau yfir mér þangað til að roðinn fór að minnka og auðveldara varð að draga andann,“ segir hún.
Jóhanna vildi greina frá reynslu sinni til þess að minna fólk á hversu mikilvægt það er að upplýsa fólkið í kringum sig um það hvernig skuli bregðast við þegar hið óvænta bankar uppá.
„Fara á skyndihjálpar námskeið ef hægt er, kynna sér hvar allt er staðsett à heimilinu í það minnsta og á ég þá við sjúkrakassa, slökkvitæki og þess háttar þar sem slys eða veikindi gera ekki boð á undan sér.“