Dóri DNA: „Ekki getum við kvartað í neinum, bara látið Ríkið valta yfir okkur“

„Ég vil taka það fram að ég er ekkert sér­stak­lega fylgjandi því að á­fengi verði selt í mat­vöru­verslunum, eða stór­mörkuðum. Ég er hins vegar á því að sér­hæfðar á­fengis­verslanir gætu breytt drykkju­menningu Ís­lendinga til hins betra, og finnst mér frum­varpið skref í þá átt.“

Þetta segir Hall­dór Lax­ness Hall­dórs­son, betur þekktur sem Dóri DNA, í um­sögn sinni á sam­ráðs­gátt stjórn­valda um á­fengis­frum­varp Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur. Verði frum­varpið að lögum verður sala á­fengis í net­verslunum og brugg­húsum gerð leyfi­leg. Þá verður einka­réttur ÁTVR á smá­sölu með á­fengi af­numinn.

Flytur inn náttúruvín

Hall­dór er annar eig­andi Berja­mór sem sér­hæfir sig í inn­flutningi á létt­vínum frá Evrópu. Í um­sögn sinni færir Hall­dór rök fyrir því hvað myndi breytast í rekstri hans fyrir­tækis ef frum­varpið yrði að lögum.

Sjálfur kveðst Hall­dór hafa pantað af er­lendum vef­síðum ótal sinnum og verið á­nægður með þá þjónustu sem hann hefur fengið. „Fyrir­tæki mitt flytur inn svo­kölluð náttúru­vín, eða vín sem gerð eru úr líf­rænt ræktuðum berjum, ó­síuð og engum auka­efnum bætt við,“ segir Hall­dór en ekkert er flutt inn nema heim­sækja vín­bændurna fyrst.

„Þetta eru smáir fram­leið­endur sem fram­leiða sitt í litlu upp­lagi. Á­herslan hjá þeim er sjálf­bærni, virðing fyrir landinu og að reyna hverfa frá iðn­fram­leiðslu­háttum,“ segir Hall­dór og bætir við að þessu æði hafi verið spáð dauða fyrir meira en tíu árum en þvert á móti hafi eftir­spurnin aukist í takt við neyt­enda­með­vitund. Hall­dór segir að ÁTVR hafi gert fyrir­tækinu erfitt fyrir og kveðst hann geta nefnt ótal dæmi um það.

„Vín frá okkur hefur verið tekið úr sölu vegna þess að nafn fram­leiðandans er ekki stærra en 1,3 mm, sem er skylda sam­kvæmt lög­gjöf Evrópu­sam­bandsins. Samt er um­rætt vín ítalskt, fram­leitt í Evrópu og selt um alla Evrópu. En hér á Ís­landi strandar það á skerjum reglu­verks ESB, sem er svo sem sjálf­sagt - auð­vitað getur ríkis­fyrir­tækið ekki horft í gegnum fingur sér með svona,“ segir Hall­dór sem nefnir annað dæmi.

„Annað vín hefur verið tekið úr sölu vegna þess að á því stendur Vini-bianco, ÁTVR vill fá lím­miða sem stendur á hvít­vín - og er það grát­bros­legt í besta falli.“

Neytendur hafa ekki hugmynd

Þá segir Hall­dór að ÁTVR hafi svo tekið upp á því að skil­greina sjálft hvað væri náttúru­vín, þvert á allar aðrar skil­greiningar þar að lútandi. „Þannig gátu stærri birgjar flutt inn vín sem fellur að skil­greiningu ÁTVR, og selja nú eitt­hvað sem ÁTVR flokkar sem náttúru­vín, en er það alls ekki, á miklu lægra verði en við getum nokkurn tíma boðið - og neyt­endur hafa ekki hug­mynd um það.“

Hall­dór segir að svona á­kvarðanir sem teknar eru í hálf­kæringi á skrif­stofu ÁTVR geti hæg­lega kostað smáa inn­flytj­endur reksturinn. „Og þetta er ekki í lagi. En ekki getum við kvartað í neinum, bara látið Ríkið valta yfir okkur í ró­leg­heitum.“

Hall­dór segir enn fremur að náttúru­vín séu um­deild innan vín­heimsins, öll fram­leiðsla þeirra sé á skjön við hina svo­kölluðu iðnaðar­vín­fram­leiðslu, enda í höndum smærri aðila. Hafa þessir stóru aðilar tekið til­vist þeirra sem ein­hvers­konar stríðs­yfir­lýsingu.

„Gott og blessað. En þannig er það hálf hjá­kát­legt þegar starfs­menn ríkis­verslunarinnar hafa staðið við náttúru­víns­rekkann og varað fólk við „þessum vínum." Undir­ritaður hefur sjálfur lent í starfs­fólki sem gerir það,“ segir hann og bætir við að þetta sé hálf ömur­leg staða að vera í. „Að finna góðan vín­bónda, flytja inn vínið frá honum, og leggja það svo í hendur þriðja aðila (ríkisins) að selja það - sem ræður fólki frá því því honum finnst að sér vegið per­sónu­lega!“

Ekki fólk sem vill verða mígandi fullt

Hall­dór nefnir einnig að vínin komi oft í litlu upp­lagi, sumar tegundir kannski í 90-120 flöskum og þá borgi sig hrein­lega ekki að fara í gegnum allt þetta vesen. „Svo ef veitinga­stöðum/öldur­húsum hugnast ekki að kaupa vínin sökum verðs eða annars, þá sitjum við uppi með þau.“

Hall­dór segir að með nú­verandi fyrir­komu­lagi hyglir ríkið stórum fram­leið­endum af víni en refsar þeim litlu. Veltir hann því fyrir sér hvers vegna staðan er þessi.

„Þessi vín eiga sér lítinn en dyggan stuðnings­hóp á Ís­landi. Á hverjum degi fáum við send skila­boð frá fólki: „Eigiði þetta?“ Er hægt að kaupa svona sem ég smakkaði þarna? Og öllum þurfum við að vísa frá. Bara til að horfa á kassa af víni daga uppi í hillunum hjá okkur. Þetta er ekki fólk sem vill verða mígandi fullt og gubba og berja ein­hvern. Þetta eru yfir­leitt mat­gæðingar, á­huga­fólk um vín, safnarar eða á­líka.“

Hann segir hálf vand­ræða­legt að geta ekki selt þessu á­huga­fólki vín. „Öll gjöld af vörunni eru greidd, ég á hana - en þú mátt ekki fá hana, vegna lýð­heilsu­sjónar­miða. Hins vegar máttu kaupa hana á veitinga­húsi þre­falt dýrari og drekka hana á staðnum.“

Hugnast ekki hundakúnstir

Hall­dór segir að vegna þess hversu flókið kerfið er hér á landi hafi for­svars­menn fyrir­tækisins velt því fyrir sér að selja fyrir­tækið dönskum fyrir­tæki, hafa lagerinn á­fram á Ís­landi, en láta fólk panta af dönsku vef­síðunni og senda það svo innan­lands.

„Þetta eru hunda­kúnstir sem mér hugnast ekki. Net­verslun myndi gera okkur kleift að selja vínin til þeirra sem vilja kaupa þau. Milli­liða­laust. Þetta myndi al­farið breyta okkar rekstri. Verði lögin ekki sam­þykkt, þá spyr maður sig ein­fald­lega hvaða felu­leik stjórn­völd vilji halda uppi? Við verðum að líta á stað­reyndir málsins í stað þess að loka augunum og signa okkur og fara vera í sið­ferðis­legum felu­leik við raun­veru­leikann.“

Hall­dór bendir svo á að vín gangi kaupum og sölum í Reykja­vík. Þeir sem vilja verða ölvaðir geti gert það án nokkurs vanda.

„Bjór og sterkt á­fengi er keyrt heim til fólks með að­gang að réttum FB-hópum eða til ung­menna með Whats-app, heima­brugg er keyrt í brúsum til fólks fyrir lágt verð, stórir inn­flytj­endur sem smáir leka flöskum fram hjá bók­haldi, veitinga­staðir selja vín út um bak­dyrnar á hverju kvöldi, fólk sem á efni á því pantar sér vín af netinu . Væri ekki hreinna og beinna að gera þetta fyrir opnum tjöldum? Og styrkja for­varnir þar sem það á við, til­lagan í þessu frum­varpi er ekki byltingar­kennd og mun engu breyta fyrir neyt­endur þannig séð, þeir hafa til þessa getað pantað sér vín af netinu, bæði frá út­löndum og af ÁTVR,“ segir Hall­dór sem endar um­sögn sína á þessum orðum:

„Kannski, með því að treysta fag­fólki og fólki sem er ást­ríðu­fullt fyrir víni til þess að selja það sjálft, má í leiðinni vinda ofan af of­drykkju­menningu Ís­lendinga og reyna inn­leiða kúlti­veraðri nálgun á vín­drykkju. Með von um að skref verði stigið til betri drykkju­menningar.“