„Ég vil taka það fram að ég er ekkert sérstaklega fylgjandi því að áfengi verði selt í matvöruverslunum, eða stórmörkuðum. Ég er hins vegar á því að sérhæfðar áfengisverslanir gætu breytt drykkjumenningu Íslendinga til hins betra, og finnst mér frumvarpið skref í þá átt.“
Þetta segir Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, í umsögn sinni á samráðsgátt stjórnvalda um áfengisfrumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur. Verði frumvarpið að lögum verður sala áfengis í netverslunum og brugghúsum gerð leyfileg. Þá verður einkaréttur ÁTVR á smásölu með áfengi afnuminn.
Flytur inn náttúruvín
Halldór er annar eigandi Berjamór sem sérhæfir sig í innflutningi á léttvínum frá Evrópu. Í umsögn sinni færir Halldór rök fyrir því hvað myndi breytast í rekstri hans fyrirtækis ef frumvarpið yrði að lögum.
Sjálfur kveðst Halldór hafa pantað af erlendum vefsíðum ótal sinnum og verið ánægður með þá þjónustu sem hann hefur fengið. „Fyrirtæki mitt flytur inn svokölluð náttúruvín, eða vín sem gerð eru úr lífrænt ræktuðum berjum, ósíuð og engum aukaefnum bætt við,“ segir Halldór en ekkert er flutt inn nema heimsækja vínbændurna fyrst.
„Þetta eru smáir framleiðendur sem framleiða sitt í litlu upplagi. Áherslan hjá þeim er sjálfbærni, virðing fyrir landinu og að reyna hverfa frá iðnframleiðsluháttum,“ segir Halldór og bætir við að þessu æði hafi verið spáð dauða fyrir meira en tíu árum en þvert á móti hafi eftirspurnin aukist í takt við neytendameðvitund. Halldór segir að ÁTVR hafi gert fyrirtækinu erfitt fyrir og kveðst hann geta nefnt ótal dæmi um það.
„Vín frá okkur hefur verið tekið úr sölu vegna þess að nafn framleiðandans er ekki stærra en 1,3 mm, sem er skylda samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins. Samt er umrætt vín ítalskt, framleitt í Evrópu og selt um alla Evrópu. En hér á Íslandi strandar það á skerjum regluverks ESB, sem er svo sem sjálfsagt - auðvitað getur ríkisfyrirtækið ekki horft í gegnum fingur sér með svona,“ segir Halldór sem nefnir annað dæmi.
„Annað vín hefur verið tekið úr sölu vegna þess að á því stendur Vini-bianco, ÁTVR vill fá límmiða sem stendur á hvítvín - og er það grátbroslegt í besta falli.“
Neytendur hafa ekki hugmynd
Þá segir Halldór að ÁTVR hafi svo tekið upp á því að skilgreina sjálft hvað væri náttúruvín, þvert á allar aðrar skilgreiningar þar að lútandi. „Þannig gátu stærri birgjar flutt inn vín sem fellur að skilgreiningu ÁTVR, og selja nú eitthvað sem ÁTVR flokkar sem náttúruvín, en er það alls ekki, á miklu lægra verði en við getum nokkurn tíma boðið - og neytendur hafa ekki hugmynd um það.“
Halldór segir að svona ákvarðanir sem teknar eru í hálfkæringi á skrifstofu ÁTVR geti hæglega kostað smáa innflytjendur reksturinn. „Og þetta er ekki í lagi. En ekki getum við kvartað í neinum, bara látið Ríkið valta yfir okkur í rólegheitum.“
Halldór segir enn fremur að náttúruvín séu umdeild innan vínheimsins, öll framleiðsla þeirra sé á skjön við hina svokölluðu iðnaðarvínframleiðslu, enda í höndum smærri aðila. Hafa þessir stóru aðilar tekið tilvist þeirra sem einhverskonar stríðsyfirlýsingu.
„Gott og blessað. En þannig er það hálf hjákátlegt þegar starfsmenn ríkisverslunarinnar hafa staðið við náttúruvínsrekkann og varað fólk við „þessum vínum." Undirritaður hefur sjálfur lent í starfsfólki sem gerir það,“ segir hann og bætir við að þetta sé hálf ömurleg staða að vera í. „Að finna góðan vínbónda, flytja inn vínið frá honum, og leggja það svo í hendur þriðja aðila (ríkisins) að selja það - sem ræður fólki frá því því honum finnst að sér vegið persónulega!“
Ekki fólk sem vill verða mígandi fullt
Halldór nefnir einnig að vínin komi oft í litlu upplagi, sumar tegundir kannski í 90-120 flöskum og þá borgi sig hreinlega ekki að fara í gegnum allt þetta vesen. „Svo ef veitingastöðum/öldurhúsum hugnast ekki að kaupa vínin sökum verðs eða annars, þá sitjum við uppi með þau.“
Halldór segir að með núverandi fyrirkomulagi hyglir ríkið stórum framleiðendum af víni en refsar þeim litlu. Veltir hann því fyrir sér hvers vegna staðan er þessi.
„Þessi vín eiga sér lítinn en dyggan stuðningshóp á Íslandi. Á hverjum degi fáum við send skilaboð frá fólki: „Eigiði þetta?“ Er hægt að kaupa svona sem ég smakkaði þarna? Og öllum þurfum við að vísa frá. Bara til að horfa á kassa af víni daga uppi í hillunum hjá okkur. Þetta er ekki fólk sem vill verða mígandi fullt og gubba og berja einhvern. Þetta eru yfirleitt matgæðingar, áhugafólk um vín, safnarar eða álíka.“
Hann segir hálf vandræðalegt að geta ekki selt þessu áhugafólki vín. „Öll gjöld af vörunni eru greidd, ég á hana - en þú mátt ekki fá hana, vegna lýðheilsusjónarmiða. Hins vegar máttu kaupa hana á veitingahúsi þrefalt dýrari og drekka hana á staðnum.“
Hugnast ekki hundakúnstir
Halldór segir að vegna þess hversu flókið kerfið er hér á landi hafi forsvarsmenn fyrirtækisins velt því fyrir sér að selja fyrirtækið dönskum fyrirtæki, hafa lagerinn áfram á Íslandi, en láta fólk panta af dönsku vefsíðunni og senda það svo innanlands.
„Þetta eru hundakúnstir sem mér hugnast ekki. Netverslun myndi gera okkur kleift að selja vínin til þeirra sem vilja kaupa þau. Milliliðalaust. Þetta myndi alfarið breyta okkar rekstri. Verði lögin ekki samþykkt, þá spyr maður sig einfaldlega hvaða feluleik stjórnvöld vilji halda uppi? Við verðum að líta á staðreyndir málsins í stað þess að loka augunum og signa okkur og fara vera í siðferðislegum feluleik við raunveruleikann.“
Halldór bendir svo á að vín gangi kaupum og sölum í Reykjavík. Þeir sem vilja verða ölvaðir geti gert það án nokkurs vanda.
„Bjór og sterkt áfengi er keyrt heim til fólks með aðgang að réttum FB-hópum eða til ungmenna með Whats-app, heimabrugg er keyrt í brúsum til fólks fyrir lágt verð, stórir innflytjendur sem smáir leka flöskum fram hjá bókhaldi, veitingastaðir selja vín út um bakdyrnar á hverju kvöldi, fólk sem á efni á því pantar sér vín af netinu . Væri ekki hreinna og beinna að gera þetta fyrir opnum tjöldum? Og styrkja forvarnir þar sem það á við, tillagan í þessu frumvarpi er ekki byltingarkennd og mun engu breyta fyrir neytendur þannig séð, þeir hafa til þessa getað pantað sér vín af netinu, bæði frá útlöndum og af ÁTVR,“ segir Halldór sem endar umsögn sína á þessum orðum:
„Kannski, með því að treysta fagfólki og fólki sem er ástríðufullt fyrir víni til þess að selja það sjálft, má í leiðinni vinda ofan af ofdrykkjumenningu Íslendinga og reyna innleiða kúltiveraðri nálgun á víndrykkju. Með von um að skref verði stigið til betri drykkjumenningar.“