Dömuskóladraumur í tilefni fyrsta í aðventu

Í tilefni að fyrsta í aðventu fengum við Kristínu Edwald hæstarréttalögmann hjá LEX og sælkæra með meiru til að deila með lesendum einni af sinni jólasmáköku uppskrift sem ljúft væri að baka um helgina. Kristín sem við köllum gjarnan okkar Mörthu Stewart, er þekkt fyrir hæfileika sína í matargerð og bakstri auk þess hún er svo mikill fagurkeri. Henni er margt til lista lagt og allt sem hún gerir er metnaðarfullt og aðlaðandi. Aðspurð segist Kristín ávallt hlakka til jólanna og öllu því sem þeim fylgir.

Yndislegt að baka á aðventunni

„Ég er mikið jólabarn og þetta árið kom jólaskapið óvenjusnemma. Mér finnst yndislegt að baka á aðventunni og smákökurnar eru borðaðar jafnóðum. Við krakkarnir bökum alltaf vanilluhringi, eins og mamma bakaði þá, fyrir jólin. Það er alveg ómissandi og líka að drekka appelsín í gleri meðan við bökum. Ég er fastheldin í ákveðnar jólahefðir en finnst líka gaman að prófa eitthvað nýtt. Þessa uppskrift sem ég kalla Dömuskóladraumur bakaði ég fyrst þegar ég fór í vetrarlautarferð með æskuvinkonunum úr Álftamýrarskóla fyrir stuttu. Við gengum í kringum Reynisvatn og tókum með okkur kakó, mandarínur, heitan jólakryddaðan eplasafa og smákökur, settumst niður, kveiktum á kerti og spiluðum jólalög. Við köllum okkur Dömuskólann og þaðan kemur nafnið á smákökunum sem hittu alveg í mark. En það dásamlegast við aðventuna er einmitt að njóta svona stunda með fjölskyldu og vinum.“

Súkkulaðibitakökur í jólabúningi

„Grunnuppskriftin er dönsk en ég hef breytti henni dálítið eftir mínum smekk. Þetta eru í raun súkkulaðibitakökur í jólabúningi. Svo er svo gaman með þessa uppskrift að geta skipt út gúmmilaðinu sem maður setur í deigið. Ég hef alltaf möndlur en aðrar samsetningar breytast, til dæmis trönuber eða aðrir þurrkaðir ávextir í staðinn fyrir rúsínur og svo hvítt, ljóst og/eða dökkt súkkulaði. Af því að að gúmmilaðinu er blandað í síðast er tilvalið að skipta deiginu og gera mismunandi sortir. Kandísinn og kryddið gefa kökunum síðan algjört draumabragð.“

Kristín Edwald 38 (1).jpg

Dömuskóladraumur

150 g mjúkt smjör

80 g púðursykur

60 g kandís (ég kaupi gamla góða kandísinn og mala hann í blandara þannig að áferðin sé aðeins fínni en púðursykurinn)

215 g hveiti

1 stórt egg

½ tsk matarsódi

½ tsk lyftiduft

1 tsk negull (eða meira eftir smekk)

1 msk engifer

hvítur pipar (á hnífsoddi eins og stendur í gömlu uppskriftunum hennar mömmu, sem sagt bara örlítið)

80 g möndlur (afhýddar möndur, skornar gróft)

80 g rúsínur (eða trönuber)

80 g súkkulaði (saxað, hvítt, ljóst, dökkt eftir skapi og smekk)

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C. Þeytið smjörið, púðursykurinn og malaða kandísinn saman, bætið egginu við og þeytið þar til samlagast. Setjið þurrefnin, lyftiduft, matarsóda, hveiti, negul, engifer og hvítan pipar saman við og hnoðið. Bætið svo gúmmulaðinu við þannig að það blandist jafnt. Búið til kúlur, ég hef þær ca 2,5 cm í þvermál, setjið á bökunarplötu og gott er að ýta létt ofan á þær þannig að þær fletjist aðeins út. Bakið við 180°C á undir- og yfirhita í 12-15 mínútur þar til að kökurnar eru fallegar á litinn.

Gleðilega aðventu.

Myndir Stefán/Fréttablaðið