Dómsdagur í nánd?

Forngríska skáldið Hesíódos var uppi á sjöundu öld fyrir Krist. Í ritinu Verki og dögum lýsir hann fimm tímaskeiðum fram til sinna daga, allt frá „gullöldinni“ svonefndu. Meginstefið er hnignun heimsins; hin forsögulega „gullöld“, þegar smjör draup af hverju strái, er löngu liðin. Þarna birtist kunnuglegt stef sem endurómar fram til okkar tíma. Raunar svo kröftuglega að stundum mætti ætla að dómsdagur væri í nánd.

\"„Gullöldin“Daglega dynja á okkur fréttir af hörmungum, útbreiðslu banvænna sjúkdóma, hungursneyðum, stríðsátökum, ofhlýnun jarðar, tugmilljónum manna á vergangi og svo mætti lengi telja. Frans páfi hélt því nýlega fram að alþjóðavæðing hefði dæmt marga til hungurs, þjóðernisöfgamenn segja hvarvetna að vestræn siðmenning sé á fallanda fæti og ofstækisfólk í umhverfismálum boðar heimsendi á næstu árum. Fyrir fáeinum dögum heyrði ég meðal annars af ungri stúlku sem kom grátandi heim úr skólanum vegna þess að henni hafði verið talin trú um að hennar kynslóð væri sú síðasta sem gengi á jörðinni.

Ótti við framtíðina er ekki gott veganesti út í lífið. Ofsahræðsla almennings er líka frjór jarðvegur öfgaafla. Tal um meint yfirvofandi fall vestrænnar siðmenningar eða tortímingu lífríkis jarðarinnar mun kalla á „sterka leiðtoga“. Þeir hinir sömu eru líklegir til að telja lýðræðisleg vinnubrögð til trafala. Til lausnar á „neyðarástandi“ þurfi stóraukin ríkisafskipti og höft á frelsi borgaranna.

 

Heimur batnandi fer

„Allt hafði annan róm, áður í páfadóm“ var ort þegar landsmenn litu með eftirsjá til tíma Rómarkirkju hér á landi – áður en dönsk yfirvöld komu á siðaskiptum. Nýlegar sagnfræðirannsóknir benda þó til þess til að með auknum dönskum yfirráðum hafi réttarstaða alls almennings batnað. Núverandi forseti Bandaríkjanna horfir í málflutningi sínum til fortíðar með sama hætti. Vesturheimur skal verða glæstur „á nýjan leik“. Í kosningabaráttu sinni árið 2016 ól hann á margvíslegum ótta, ótta við hið ókomna. Um vorið sama ár gengu Bretar að kjörborði og samþykktu að segja skilið við Evrópusambandið. Um líkar mundir sýndi skoðanakönnun að 58% þarlendra töldu lífshætti verri nú en fyrir þrjátíu árum.

\"\"

Meira að segja sá ágæti maður, Frans páfi, segir alþjóðavæðinguna hafa dæmt marga til hungurs

Þegar betur er að gáð kemur í ljós að svartagallsrausið á sér litla stoð í raunveruleikanum. Í bókinni Framsteg, tio skäl att se fram emot framtiden eftir sænska sagnfræðinginn Johan Norberg kemur meðal annars fram að árin 1981–2015 hafi hlutfall þeirra íbúa lág- og meðaltekjulanda sem bjuggu við sára fátækt lækkað úr 54% í 12%. Hungur er ekki sú ógn sem áður var og stórstígar framfarir í landbúnaði, kenndar við „grænu byltinguna“, hafa gert það að verkum að nú má brauðfæða miklu fleiri jarðarbúa en áður. Þannig mætti lengi telja. Sífellt fleiri menntast, heilsufar batnar stórum, stríðum fer fækkandi, ofbeldi er á undanhaldi og stöðugt aukast réttindi hvers kyns minnihlutahópa víðs vegar um heiminn.

Taka má mýmörg dæmi um stórbættan heim. Berlínarmúrinn féll fyrir þremur áratugum og kommúnisminn hrundi í mið- og austurhluta Evrópu. Milljónir manna öðluðust frelsi; frelsi til athafna,menntunar og ferðalaga. Til urðu ný og traust lýðræðisríki, öflugir bandamenn annarra Evrópuþjóða í sameinaðri álfu friðar og farsældar.

\"\"

Bók Johan Norbergs, Fremsteg, hefur komið út í íslenskri þýðingu.

Hin fagra óvissa lífsins

\"\"Hér er ekki ætlunin að upphefja einfeldningslega framfaratrú eða gera á nokkurn hátt lítið um hvers kyns ógnum sem stafa að mannkyni, til að mynda í umhverfismálum, en í ljósi sögu síðustu áratuga er engu að síður full ástæða til bjartsýni. Í þessu efni sem og öðrum er rétt að forðast oftrú á stjórnmálamönnum sem margir prédika um þessar mundir aukin ríkisumsvif á öllum sviðum til að vinna bug á aðsteðjandi vandamálum. Þvert á móti ættum við að horfa í auknum mæli til hins frjálsa markaðar. Ég gæti tekið íslenska hátæknifyrirtækið Marel sem dæmi, en hugvitsmenn þess hafa fundið upp lausnir sem bæta nýtingu hráefnis og þar með hefur tekist að draga stórkostlega úr matarsóun, sem er ein þeirra ógna í umhverfismálum sem nú er mjög er til umfjöllunar. Það er nefnilega svo að í ýmsum þeim vandamálum sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir felast tækifæri til verðmætasköpunar.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, komst ágætlega að orði þegar hann tilkynnti um framboð sitt á uppstigningardag 2016 og lagði út af óttanum:

„Það er ekkert að óttast. Við þurfum ekki að ganga til hvílu á kvöldin hrædd um það sem kunni að gerast á morgun. Auðvitað vitum við aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér en einmitt í því felst hin fagra óvissa lífsins.“

Þær stórstígu framfarir sem hvarvetna blasa við ættu að vera okkur hvatning til bjartsýni og um leið áminning um að varast falsspámenn sem boða ragnarök og upphefja ímyndaða „gullöld“.