Einhvern veginn kom það ekki á óvart að Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins færi af stað með umræður um svokallað „Djúpríki“. Það mætti skilgreina sem leynilegt bandalag hagsmunaafla sem hefur það markmið að tryggja eigin stöðu umfram aðra þjóðfélagsþegna en á kostnað þeirra.
Styrmir á sér marga skoðanabræður víða um lönd sem hafa undir merkjum lýðhylli og andstöðu við alþjóðasamvinnu og frjáls alþjóðaviðskipti, varað við Djúpríkinu. Ýmsir stjórnmálaleiðtogar taka undir þetta og segja að eina leiðin sé að styðja þá sjálfa gegn hinum hættulegu og ósýnilegu sérhagsmunaöflum. Núverandi forseti Tyrklands Erdogan hefur réttlætt gerræðisleg vinnubrögð og þróun til einræðis með tilvísin í baráttuna gegn Djúpríkinu. Flokkur „Laga og réttlætis“, ráðandi stjórnmálaflokkur í Póllandi, segir Djúpríkið samanstanda af fyrrum leyniþjónustu kommúnista og arftaka þeirra frjálslyndra afla og alþjóðasinna. Og auðvitað er Djúpríkið í Bandaríkjunum á móti Trump og stuðningsmönnum hans. Forsetinn sá segir flesta fjölmiðla málpípur Djúpríkisins.
Auðvitað er ekkert Djúpríki á Íslandi. Hér er ekkert leynilegt bandalag hagsmunaafla að stjórna Íslandi. Hér er gagnsæi meira en í flestum ríkjum. Við erum of fá til að fela eitthvað. Þjóðfélagsumræðan er opinská og gagnrýnin.
Engu að síður hafa sterk hagsmunaöfl tryggt eigin stöðu umfram aðra þjóðfélagsþegna:
- Sterk sérhagsmunaöfl landbúnaðarins halda hlífiskildi yfir milljarða fjáraustri á ári hverju í úrelt kerfi og almenningur borgar. Hár matarkostnaður í samanburði við önnur ríki er oft réttlættur með smithættu.
- Sérhagsmunaöfl sjávarútvegsins, sem vilja hvorki markaðsvæðingu í sjávarútvegi né erlendar fjárfestingar koma sínu fram óháð almannavilja. Þau kosta jafnvel fjölmiðla og stjórnmálaflokka til að tryggja það. Og auðvitað á að tryggja áfram hvalveiðar fyrir eitt fjölskyldufyrirtæki, hvað sem líður hagsmunum almennings.
- Sérhagsmunaöflin sem hafa í áratugi varið hróplegt atkvæðamisvægi milli landshluta. Meiru skiptir að Framsóknarflokkarnir haldi sínum styrk með misvæginu en að stuðla að framgangi lýðræðisins og gera Ísland að einu kjördæmi.
- Sérhagsmunaöflin sem verja það hróplega óréttlæti sem flest í ógnarháum vaxtakostnaði á Íslandi. Hár herkostnaður almennings við að viðhalda veikum gjaldmiðli skiptir engu. Ráðandi öfl verða að geta stýrt þessu að eigin geðþótta.
Þrátt fyrir að Styrmir Gunnarsson hafi staðið með almannahag t.d. í umræðum um sjávarútveg, verður því vart neitað að hann hefur verið hluti af íslenskri valdastétt í áratugi. Oftar en ekki hefur hann stutt sérhagsmunaöfl í baráttu gegn almannahag. Þannig hefur hann varið óheilbrigt landbúnaðarkerfi og einangrun Íslands með kjafti og klóm. Þannig hefur hann sungið forsöng í kór sérhagsmunaaflanna til stuðnings fallvaltri krónu. Hafi Djúpríkið verið til á Íslandi er Styrmir órofa hluti þess.