Diljá: „Það var í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi“

Diljá Mist Einarsdóttir, hæstaréttarlögmaður og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vill ekki að Alþingi samþykki frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta af fíkniefnum.

Málið er Diljá hugleikið en hún missti systur sína, Súsí, úr of stórum skammti af eiturlyfjum fyrir fjórtán árum síðan. Diljá sagði sögu sína og systur sinnar í Íslandi í dag í gærkvöldi og óhætt er að segja að um tilfinningaþrungna umfjöllun hafi verið að ræða.

Dilja skrifaði meðal annars grein sem birtist á vef Vísis í morgun þar sem hún lýsti andstöðu sinni við þau skilaboð sem felast í frumvarpinu. Hún sagði þó að hugsunin að baki frumvarpinu væri ekki röng en forvarnir og meðhöndlun fíkniefnasjúkdóma væri besta leiðin til að draga úr vandanum.

„Með því að gera vörslu og neyslu ólögmætra vímuefna refsilausa erum við að senda fólki, sérstaklega ungu fólki, þau skilaboð að þetta sé í lagi,“ sagði hún meðal annars.

Diljá, sem er 32 ára, kemur úr þéttri og góðri fjölskyldu og eru þau fjögur systkinin sem fæddust á sex ára tímabili. Súsí var tveimur árum eldri en Diljá, bráðgreind og þroskuð, og fór hún í MR eftir grunnskólagönguna. Þar fann hún sig ekki nægjanlega vel og undir lok fyrsta skólaársins var hún komin út í ákveðnar ógöngur með líf sitt.

Það var vinkona hennar sem benti fjölskyldu hennar á að Súsí væri komin í neyslu. Hún hefði byrjað í kannabisefnum og fært sig svo yfir í sterkari lyf sem og lyfseðilsskyld lyf. Hlutirnir gerðust nokkuð hratt í kjölfarið og á innan við ári var hún komin í dagneyslu á fíkniefnum.

Súsí virtist vera að komast á rétta braut eftir að hún fór í meðferð og kynntist starfi 12 spora samtakanna. Hún var edrú í þrjú ár, kláraði menntaskóla og stefndi á nám í læknisfræði. Eftir að hafa veikst hastarlega með þeim afleiðingum að hún fékk sterk verkjalyf féll hún aftur í sama farið og hóf neyslu á nýjan leik.

Diljá segir að hún hafi orðið reið út í systur sína og lokað á hana. „Ég hafði farið í góða heimsókn til hennar þarna á miðvikudeginum. Þá kveð ég hana og það var í síðasta skipti sem ég sá hana á lífi. Svo fáum við að vita það á föstudeginum að hún fái að fara á Vog strax á mánudeginum en á föstudagskvöldinu fer hún í hjartastopp út af of stórum skammti,“ sagði hún í viðtalinu sem Vísir fjallar ítarlega um.

Eins og að framan greinir sækist Diljá eftir því að komast á þing og þar vill hún berjast fyrir málefnum fíkla. Hún telur þó að afglæpavæðing neysluskammta sé ekki rétt skref.

Hér er hægt að lesa umfjöllun Vísis um viðtalið.

Hér er hægt að lesa grein Diljár um afglæpavæðingu neysluskammta.