Leiðarahöfundur Morgunblaðsins, sem margir telja líklegt að sé Davíð Oddsson ritstjóri blaðsins, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa verið lagðan í einelti og að Joe Biden, sem tekur við sem forseti síðar í þessum mánuði sé „veikasti“ forsetinn í sögu Bandaríkjanna.
„Hann var, svo sem frægt er, geymdur í kjallaranum heima hjá sér næstum alla kosningabaráttuna, en rækilega studdur af bandaríska fjölmiðlaveldinu sem lét sér nægja að fá sendar spurningar til frambjóðandans frá umsjónarmönnum hans og sitja svo „hugfangnir“ fyrir framan hann þegar Joe las svörin af spjöldum sem ekki var endilega ljóst hvort hann hefði haft nokkuð með að gera!,“ segir hann um Biden. Þá segir hann í leiðara dagsins það ekki umdeilt að Biden gangi „ekki á öllum“.
Það sé ekki góð einkunn fyrir Trump að ráða ekki við Biden. „En hans menn geta bent á að enginn forseti á síðari tímum hefur sætt öðru eins einelti og Trump sætti í sinni tíð. Nær allt kjörtímabilið var sveit sérstaks saksóknara með tugi saksóknara og rannsakenda að fara yfir ásakanir um að Rússar hefðu séð til að Trump ynni kosningarnar 2016.“
Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, setur þetta í samhengi við óeirðirnar Vestanhafs þar sem stuðningsmenn Trump réðust inn í þinghúsið til að mótmæla staðfestingu þingsins á kjöri Biden.
„Hvað skyldi ritstjóri Morgunblaðsins segja í forystugrein eftir atburðina í Washington í gær? Jú, hugur hans er hjá smælingjanum í Hvíta húsinu sem sætti einelti allt kjörtímabilið,“ segir Benedikt á Facebook.
„Já, við erum heppin Íslendingar að hafa alvöru fjölmiðil og enn heppnari að hafa ritstjóra sem hefur puttann á púlsinum og „gengur á öllum“.“