Davíð Scheving Thorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, er látinn, 92 ára að aldri. Greint er frá andláti hans í Morgunblaðinu í dag. Davíð kom víða við í íslensku atvinnulífi eftir að hann lauk stúdentsprófi frá MR árið 1949.
Hann var framkvæmdastjóri hjá Smjörlíki hf. og Sól hf. á árunum 1964 til 1995 og gegndi auk þess fjölda ábyrgðarstarfa í íslensku atvinnulífi og fyrir hið opinbera. Hann sat meðal annars í framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins og varaformaður þess á árunum 1978 til 1990. Hann var formaður bankaráðs Iðnaðarbankans 1982-1989, varamaður í bankaráði Landsbanka Íslands 1972-1980, varamaður í bankaráði Seðlabanka Íslands 1980-1993 og aðalmaður í stjórn bankans á árunum 1993-1998.
Davíð átti sinn þátt í því að bjórinn var leyfður á Íslandi en árið 1980 reyndi hann að fara með bjór inn í landið, eins og hann rifjaði upp í skemmtilegu viðtali við Fréttablaðið árið 2019, í tilefni þess að þá voru 30 ár liðin frá því að bjórinn var leyfður á íslandi.
„Dóttir mín var flugfreyja og hún mátti koma með bjór inn í landið fyrir mig, en ekki ég. Ég gat ekki séð að þetta samrýmdist stjórnarskrá Íslands að einhverjir kjarasamningar gætu leyft sjómönnum og flugliðum að flytja inn vöru, en ekki almenningi. Það fauk bara í mig,“ sagði Davíð í viðtalinu og ákvað hann því að kaupa kippu af bjór í fríhöfninni.
„Ég setti bjórinn ofan á töskuna mína og fór inn í tollinn. Þeir sögðu að það mætti ekki fara í gegn með bjór. Ég átti að skrifa undir sátt og greiða sekt. Ég sagði nei því ég var ekkert sáttur.“
Þetta varð til þess að Sighvatur Björgvinsson, þáverandi ráðherra skrifaði undir reglugerð sem leyfði almenningi að fara með bjór inn í landið. „Það er hann sem á heiðurinn af því en ekki ég,“ sagði Davíð hógvær í viðtalinu.
Davíð var sæmdur fálkaorðunni árið 1982. Hann lætur eftir sig eiginkonu og sex börn. Útför hans fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík þann 25. apríl næstkomandi.