Illskeytt afstaða Davíðs Oddssonar gagnvart formanni Sjálfstæðisflokksins vekur furðu flestra en hún á sér djúpstæðar persónulegar ástæður.
Í Reykjvíkurbréfi um helgina eyði Davíð miklu púðri í meint svik Bjarna varðandi ráðningu Más Guðmundssonar í embætti seðlabankastjóra. Hvað er málið? Hefur Már ekki staðið sig vel í embætti? Og hvað kemur Davíð Oddssyni þessi ráðning annars við? Hann var enginn aðili þess máls og því gat enginn svikið hann vegna þessarar ráðningar.
Það sem kraumar undir hjá Davíð og veldur hamslausri illsku hans í garð Bjarna eru allt önnur “svik” þegar Bjarni lauk ekki því verki að skipa Davíð í embætti formanns Landsvirkjunar árið 2014.
Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum vorið 2013 byrjuðu útsendarar Davíðs að tala fyrir því við Bjarna að flokkurinn gerði nú eitthvað stórt fyrir Davíð til að bæta honum upp þá niðurlægingu sem vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms sýndu honum með því að reka hann öfugan út úr seðlabankanum vorið 2009. Með því átti að reyna að endurreisa fyrrum formann flokksins til nokkurra valda og vonandi einhverrar virðingar.
Fljótlega kom á daginn að Davíð vildi verða formaður Landsvirkjunar. Hann ætlaði að sinna þeirri ábyrgðarstöðu samhliða dvöl sinni á Morgunblaðinu og hann ætlaði að vera mjög virkur stjórnarformaður og hafa skrifstofu í höfuðstöðvum Landsvirkjunar. Þetta lak út og birtist í fjölmiðlum.
Þá brá svo við að Hörður Arnarson forstjóri, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri og fleiri lykilmenn hjá Landsvirkjun gengu á fund Bjarna Benediktssonar og tilkynntu honum að yrði Davíð skipaður stjórnarformaður þá segðu þau öll störfum sínum lausum samstundis. Ljóst var að það yrði fyrirtækinu stórkostlegt áfall, meðal annars vegna samskipta við erlenda lánardrottna.
Bjarni gerði sér þá þegar ljóst að ógerningur væri að skipa Davíð formann Landsvirkjunar. Fyrir því væri einfaldlega ekki “pólitísk innstæða” hjá Sjálfstæðisflokknum. Jónas Þór Guðmundsson, lögmaður í Hafnarfirði, tók þá við formennsku stjórnar Landsvirkjunar vorið 2014 og gegnir þeirri virðingarstöðu enn.
Davíð Oddsson varð viti sínu fjær af bræði vegna þessara málaloka og hefur ekki fyrirgefið Bjarna Benediktssyni þessi “svik” ennþá. Davíð segist vera langminnugur. Það kann vel að vera. En hann er fyrst og fremst langrækinn og hefnigjarn. Í ljósi þess verður að skoða heiftarlega afstöðu hans til forystu Sjálfstæðisflokksins.
Særð dýr taka skrefin yfirleitt ekki af yfirvegun. Þau ráðast á allt sem verður á vegi þeirra og reyna að tortíma bráðinni.
Stundum tekst það en stundum tortíma særðu dýrin sjálfum sér.