Davíð niðurlægður í boði sægreifanna

Allt stefnir í að forsetaframboð Davíðs Oddssonar verði flopp allra floppa á Íslandi. Hann bauð sig fram og trúði því að hann gæti mátað sig inn í meint tómarúm við brottför Ólafs Ragnars Grímssonar. En þar brást honum heldur betur bogalistin. Niðurlæging Davíðs er slík að hann má þakka fyrir ef hann nær öðru sætinu með 20% atkvæða þegar stefnir í að Guðni Th. Jóhannesson verði kjörinn með um helming atkvæða á bak við sig.
 
Það er ekki einu sinni víst að Davíð haldi öðru sætinu því vaxandi stemning er með framboði Andra Snæs Magnasonar sem samkvæmt síðustu könnun var einungis einu prósentustigi á eftir Davíð sem var kominn niður í 16% og á niðurleið meðan Andri Snær og reyndar Halla styrkja sig með hverjum deginum sem líður.
 
Sægreifarnir sem hafa verið með Davíð  á launaskrá á Morgunblaðinu síðustu 7 árin hafa við þennan mótbyr einungis aukið við fjárausturinn með margháttuðum auglýsingum í blöðum, sjónvarpi, útvarpi og á netinu. Ekkert er til sparað og nú mun markmiðið vera það eitt að minnka skaðann, að reyna að koma í veg fyrir enn meiri niðurlægingu en þegar blasir við. Í herbúðum Davíðs vona menn að kjörsókn verði sem allra minnst því þekkt er að eldra fólk skilar sér betur á kjörstað en hinir yngri. Því minni kjörsókn þeim mun skárri gæti niðurstaðan orðið fyrir Davíð. Vitað er að helstu ráðgjafar Davíðs gera ráð fyrir að mjög slæm kjörsókn gæti skilað honum upp í 20 til 25% fylgi sem þeir vilja líta á sem viðunandi enda um það bil sama fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn er að mælast með.
 
Það hefur vakið mikla athygli í þessari kosningabaráttu hve Davíð hefur leyft sér að vera neikvæður og blátt áfram ómerkilegur í garð hinna frambjóðendanna, einkum Guðna. Ljóst er að hernaðaráætlun hans hefur misheppnast algerlega eins og kannanir sýna. Það átti að freista þess að rífa niður og henda smjörklípum í allar áttir en það er ekki að virka. Ætla má að þjóðin sé farin að sjá við loddaraskap af því tagi. Það er gleðilegt.
 
Fólk horfir til þess með tilhlökkun að sjá Ólaf Ragnar Grímsson hverfa af vettvangi og fulltrúa nýrrar kynslóðar taka við á Bessastöðum, eðlilegan fjölskyldumann sem er einn af okkur. Það verður ekki síður tilhlökkunarefni að sjá Davíð Oddsson afgreiddan í eitt skipti fyrir öll út úr þjóðfélagsumræðunni. Eftir þá sneypuför sem nú blasir við mun enginn nenna framar að hlusta á hann. 
 
Ef sægreifarnir sem eiga Morgunblaðið leyfa honum að dvelja áfram í Hádegismóanum eftir þessa niðurlægingu er það þeirra vandamál en ekki kjósenda sem verða búnir að gera endanlega upp við hann. Rödd hans verður hjáróma eftir þetta.
 
Um næstu helgi lýkur löngum valdaferli Ólafs Ragnars og Davíðs um leið. Þá kveður þjóðin gömul og úr sér gengin vinnubrögð þessara stríðsmanna sem allir eru orðnir hundleiðir á.