Beiskjan fossast líkt og fjörlegur bæjarlækur í pistli Staksteina í Mogganum í dag.
Gera má því skóna að Davíð Odssson haldi þar á penna eins og oft áður. Helsta vísbendingin til stuðnings þeirri ályktun er að Staksteinar hverfast um þráhyggjuna gagnvart Ríkisútvarpinu. Enn eina ferðina.
Ekki man ég hvort Davíð er búinn að skrifa 500 eða 1000 greinar eftir að hann þurfti að stíga til hliðar úr stóli seðlabankastjóra, fékk ritstjórastöðu hjá Mogganum og hefur síðan lagt leiðara blaðsins undir mikilvægi þess að leggja Rúv niður eða veikja mjög bjargir þess.
Áráttuskrifin spretta af því að Davíð kennir Ríkisútvarpinu um Búsáhaldabyltinguna. Hann telur almannaútvarpið hafa átt þátt í hans eigin falli. Horfir Davíð ítrekað fram hjá því að skoðanakannanir sýna að þjóðin vill sjálfstætt og öflugt almannaútvarp og harma fæstir nefskattinn. Rúv þarf reyndar að víkja af auglýsingamarkaði en það er önnur saga.
Í Staksteinum dagsins minnist Davíð í upphafsorðum á Vigdísi Hauks og „áhyggjur siðavandra“ gagnvart ummælum hennar á dögunum. En kveður brátt við myrkari tón. „Nýjasta uppgjöfin var að nú ætlar fjárlaganefnd ekki að láta afturkalla aukafjárveitingu til Ríkisútvarpsins, þrátt fyrir að nefndin segi að Ríkisútvarpið hafi ekki staðið við þau skilyrði sem sett voru fyrir fjárveitingunni.“
Sá Davíð virðist bugaður af beiskju sem skrifar svo:
„Staðreyndin er sú að enginn útgjaldasinni þarf að óttast Vigdísi Hauksdóttur og fjárlaganefndina hennar. Hún heldur engum í ótta. Hún sker ekkert niður.“
Davíð virðist ekki líka að Vigdís haldi engum lengur í ótta. Kunni hann enda sjálfur í eina tíð þá list öðrum betur.
„Og eftir rúmt ár lýkur kjörtímabilinu. En vegna stóryrðanna í Vigdísi þá heldur sjálfsagt fullt af fólki að ríkisstjórnin sé í miklum niðurskurði. En hún er það ekki. Ríkisstjórnin sker ekkert niður nema baráttugleði kjósenda sinna.“
Þannig lýkur Staksteinum.
Maður spyr sig hvort þvingað undanhald Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra gagnvart Rúv hafi orðið til þeirra tíðinda að Davíð auglýsi fyrir alþjóð að ríkisstjórn flokksins hans skeri ekkert niður nema baráttugleði kjósenda sinna.
Maður spyr hvort Davíð sé fastur í gamalli heimsmynd, þeim heimi þegar hann var aðal. Og þegar Davíð aðal var Illlugi Gunnarsson óbreyttur aðstoðarmaður Davíðs.
Á þeim tímum sem Vigdís Hauksdóttir hélt sig við blómaskreytingarnar og vann efalítið sína vinnu vel.
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)