Mannlíf vandar Davíð Oddssyni ritstjóra Morgunblaðsins ekki kveðjurnar vegna leiðaraskrifa hans í Morgunblaðið um sósíalismann í Eflingu og brotthvarf Sólveigar Önnu Jónsdóttur úr formennsku þar. Davíð fer mikinn í leiðara sínum og hefur Sólveigu Önnu að háði og spotti.
Reynir Traustason ritstjóri mannlífs tekur upp hanskann fyrir Sólveigu Önnu og kallar Davíð þurfaling sem um árabil hafi „verið með fjölmiðil sinn á framfæri ekkju í Vestmannaeyjum“. Davíð segir Íslendinga ekkert þurfa á sósíalisma að halda. Reynir vitnar áfram í Davíð: „„Sósíalismanum hefur alla tíð fylgt mannfyrirlitning. Einstaklingurinn skiptir engu máli, aðeins óskilgreindur fjöldinn,“ skrifar Davíð sem bendlar Sólveigu Önnu við hreinsanir. „Þeir sem aðhyllast aðrar leiðir sæta hreinsunum. Þetta hefur ítrekað sýnt sig í þeim ríkjum þar sem sósíalisminn er gerður að stjórnarstefnu.““
Í lok leiðarans furðar Davíð sig á því að sósíalismi skuli láta á sér kræla í samtímanum á Íslandi: „Að þetta stjórnarfar hafi náð tökum á verkalýðsfélagi á Íslandi nú á tímum er með miklum ólíkindum,“ eru lokaorð leiðarans.
Athyglisvert er að Davíð skuli fara svona harkalega gegn sósíalismanum þar sem ekki verður betur séð en að hann og Morgunblaðið styðji áframhaldandi vinstri stjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur formanns sósíalista á Íslandi. Sömu vinstri stjórn og setið hefur undanfarin fjögur ár og notið stuðnings Davíðs og Morgunblaðsins.
Nú er gamli baráttujaxlinn, sem eitt sinn kallaði Katrínu Jakobsdóttur „gluggaskraut“, óbreyttur fótgönguliði í herliði hennar. Nú er hann fylgjandi því að hans gamli flokkur sé burðarás í myndun vinstri stjórnar undir forystu leiðtoga sósíalista á Íslandi
Raunar felst engin nýlunda í því að Davíð Oddsson hringsnúist eins og skopparakringla á hinu pólitíska sviði. Einu sinni var hann fremstur í flokki sjálfstæðismanna sem vildu sækja um aðild að ESB og stýrði svonefndri aldamótanefnd Sjálfstæðisflokksins sem komst að þeirri niðurstöðu að líklega væri „skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið.“ Í skýrslu nefndarinnar segir einnig: „Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópubandalagið.“
Allir þekkja málflutning ritstjóra Morgunblaðsins hin síðari ár. Hann fer þvert gegn málflutningi hans á fyrri hluta stjórnmálaferils hans, þegar hann var í fylkingarbrjósti þeirra sem vildu efla íslenskt atvinnulíf og bæta lífskjör með virkri þátttöku í mikilvægasta alþjóðasamstarfi þjóða í okkar heimshluta. Nú fárast hann líka yfir sósíalisma í verkalýðshreyfingunni um leið og hann fagnar því að flokkur hans sé burðarás í vinstri stjórn undir forsæti leiðtoga sósíalista á Íslandi.
- Ólafur Arnarson