Margir hafa klórað sér í hausnum vegna tilkynningar Árvakurs um kaup á tveimu litlum útvarpsstöðvum, K100 og Retró, ásamt útgáfufyrirtækinu Eddu sem gefur út Andrés önd.
Jafnframt var tilkynnt að útgáfufélag Morgunblaðsins hafi tapað 164 milljónum króna á síðasta ári. Það þykir reyndar býsna gott þar á bæ en eins og kunnugt er hefur Árvakur tvívegis farið í gegnum milljarða niðurfellingu skulda þar sem bankar hafa tekið á sig skellinn af viðvarandi tapssukki útgáfunnar.
Sægreifar leggja Árvakri til fé til að fjármagna tapið ár frá ári þegar milljarða afskriftum bankakerfisins sleppir. Morgunblaðið hefur það hlutverk að verja gjafakvótakerfið og berjast gegn útlöndum, einkum Evrópu. Þá styður blaðið við þá stjórnmálaflokka sem eru þjálir þjónar sægreifanna.
En hvernig fellur Andrés önd að þessum meginmarkmiðum útgáfunnar? Hvað eiga Davíð Oddsson, helsta vörumerki Moggans, og Jóakim eða Andrés sameiginlegt?
Erfitt er að koma auga á það.
Frekar er unnt að benda á samsvörun milli sægreifanna sem græða á gjafakvótakerfinu og Jóakim frænda.
Þeir sanka að sér peningum.
Þá má velta fyrir sér \"samlegðaráhrifunum\" milli Moggans og útvarpsstöðvarinnar K100. Verður það nýr þáttur: SVALI & DAVÍÐ taka staðinn með stæl og koma öllum í gírinn?