Bakaðir ostar eru eitt það allra besta og núna er ostatíminn sannarlega að ganga í garð. Október heitir ekki OSTÓBER af ástæðulausu hjá Gott í matinn og Berglind okkar Hreiðars köku- og matarbloggarinn vinsæli hjá Gotterí og gersemar er algjörlega dottin í ostana. Hún deilir hér með okkur dásamlegri ostafléttu sem hittir beint í mark, það er eitthvað við bræddan ost sem erfitt er að standast. Svo sýnir Berglind okkar líka vel hvernig best er að útbúa fléttuna með fyllingunni. Ostafléttan er tilvalinn kvöldréttur sem ljúft er að njóta í góðum félagsskap á fallegum haustkvöldum.
Bökuð ostaflétta
2 stk. x Dala Auður
4 stk. x smjördeigsplötur (keyptar frosnar)
3 msk. fíkjusulta
120 g pekanhnetur
3 msk. púðursykur
3 msk. sýróp
½ tsk. cayenne pipar
Egg til penslunar
Ferskar fíkjur
- Afþýðið smjördeigsplöturnar, raðið tveimur saman hlið við hlið langsum og næstu tveimur í beinni línu þar fyrir ofan og klemmið saman samskeytin.
- Sjóðið saman púðursykur, sýróp og pipar í um 5 mínútur, saxið pekanhneturnar gróft á meðan og hellið þeim síðan saman við og hjúpið vel. Takið af hellunni og hrærið áfram þar til þær hafa drukkið sykurbráðina í sig og sykurhjúpurinn fer að storkna, geymið.
- Smyrjið miðjuna á smjördeiginu með fíkjusultu og skerið um 2 cm breiðar ræmur skáhallt niður sitthvoru megin við miðjuna (til að vefja yfir góðgætið í lokin).
- Skerið ostana niður í litla bita og hrúgið yfir sultuna ásamt pekanhnetunum (geymið smá af hnetum til skrauts).
- Pískið eggið og vefjið smjördeigsræmunum yfir miðjuna og penslið í framhaldinu (þá festast þær betur saman).
- Bakið í 200° heitum ofni í 20 mínútur eða þar til smjördeigið er orðið vel gyllt.
- Skerið ferskar fíkjur niður og raðið ofan á ostafléttuna ásamt restinni af pekanhnetunum.
Hér fyrir ofan getið þið séð aðferðina, þetta er alls ekki flókið og alveg hrikalega gott. Það má síðan að sjálfsögðu leika sér með fyllingar. Það gæti til dæmis líka verið gott að setja pestó og hráskinku með ostinum eða annað gúmelaði./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.