Daníel hjólar ekki í björn val

Daníel Arnarsson hafði nú á fimmta tímanum ekki gert upp við sig endanlega hvort hann muni bjóða sig fram til varaformanns VG en kosið verður um embætti um miðjan dag á morgun á Landsfundi. Þetta staðfesti Daníel í samtali við Hringbraut en nokkrum mínútum síðar birtist frétt á eyjunni þar sem haft er eftir honum að hann muni ekki fara fram gegn Birni Val.

Björn Valur Gíslason, sitjandi varaformaður VG og varaþingmaður, sækist áfram eftir sama embætti. Hann sagði í samtali við Hringbraut í gær að hann teldi ólíklegt að hann byði sig oftar fram innan VG ef hann fengi ekki kosningu í embættið. Það væri ekki hótun heldur veruleiki.

Ljóst er að allmörgum VG-mönnum yrði sjónarsviptir að Birni Val og er flokkurinn þverklofinn vegna málsins eftir að 74 manns og þar á meðal leiðtogar VG settu nöfn sín við opinberan stuðningslista við að Daníel verði næsti varaformaður. Hann er 25 ára gamall starfsmaður flokksins, ættaður frá Þorlákshöfn, en er að sögn VG manna sem Hringbraut hefur rætt við „rísandi stjarna“.

Hringbraut spurði Daníel: Hafa viðbrögð Björns Vals Gíslasonar sem gefur til kynna í frétt á Hringbraut í gær að hann telji sjálfhætt innan flokksins ef hann fái ekki stuðning í varaformannsembættið einhver áhrif á ákvörðun þína?

„Nei, það hefur lítil sem engin áhrif. Ég mun tilkynna ákvörðun mína í almennum stjórnmálaumræðum. Ég vil að félagar mínir séu þeir fyrstu til að frétta,“ svaraði hin 25 ára gamla vonarstjarna Vinstri grænna.

Nokkrum mínútum síðar var haft eftir Daníel á eyjan.is að hann væri hættur við framboð.