Vegagerðin upplýsir að 33 þúsund manns hafi heimsótt Dalvík um helgina vegna Fiskidagsins mikla. Allt fór vel fram og var heimamönnum til hins mesta sóma. Það er annað en unnt er að segja um þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum sem er orðin hið mesta vandræðafyrirbrigði vegna óreglu og ofbeldis.
Lögreglan í Vestmannaeyjum telur að 16 þúsund manns hafi verið á þjóðhátíð þegar mest var nú um verslunarmannahelgina. Forráðamenn hátíðarinnar segja að allt hafi farið vel fram og verið öllum til mikils sóma. Ekki eru skráð “nema” 47 fíkniefnamál, átta líkamsárásir og þrjú kynferðisbrot samkvæmt vefnum eyjafréttir.is, sem varla gera meira úr þessum afbrotum en efni standa til.
Fiskidagurinn á Dalvík hefur skapað sér þann sess að vera langfjölmennasta sumarhátíð landsmanna og tekið það sæti af Vestmannaeyjum. Sem betur fer má segja í ljósi þess að mikill menningarbragur er að hátíðarhöldum Dalvíkinga á meðan þjóðhátíðin í Eyjum einkennist af linnulausu peningaplokki, eiturlyfjaneyslu og taumlausum drykkjuskap fólks á öllum aldri; frá unglingum og upp í aldraða.
Það vantar að segja þessa sögu eins og hún er. Hljómlistaratriðin sem flutt eru á Dalvík, og sýnd hafa verið í sjónvarpinu, eru til fyrirmyndar og nánast á heimsmælikvarða. Að sönnu troða margir ágætir tónlistarmenn einnig upp í Eyjum en höfuðáherslan er þar á svonefndan brekkusöng sem er samsöngur með gestum lokakvöldið. Brekkusöngurinn endar svo með því að Árni Johnsen kemur á svið og baular þjóðsönginn.
Vestmannaeyjahátíðin einkennist því miður af þeirri lágmenningu sem viðgengst á Hróarskelduhátíðinni í Danmörku og öðrum slíkum samkomum í útlöndum. Spurningin er þessi: Þurfum við að apa það versta eftir útlendingum eða er unnt að lyfta hefðum okkar Íslendinga á hærra plan?
Við getum tekið Dalvíkingana okkur til fyrirmyndar og reynt að lyfta öllu á hærra plan.
Rtá.