Um helgina birtist á Vísi.is löng og ítarleg fréttaskýring um framboðsmál í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórakosningar. Höfundur hennar er Ólöf Skaftadóttir. Hún fjallar meðal annars um framboðsmál sjálfstæðismanna en núverandi oddviti, Eyþór Arnalds, hefur lýst því yfir að hann sækist eftir því að leiða flokkinn áfram.
Helsti keppinautur Eyþórs um oddvitasætið er Hildur Björnsdóttir sem sat í öðru sæti í síðustu borgarstjórakosningum. Hildur og Eyþór tilheyra hvort sinni fylkingunni í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, en flokkurinn er klofinn í mörgum stórum málum, t.d. varðandi Borgarlínu og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Eyþór er hluti öflugs baráttuliðs Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, eins konar hulduhers sem ávallt sigrar í Reykjavík, nú síðast í prófkjöri síðastliðið vor þegar flokkseigendurnir stilltu sér upp gegn Guðlaugi Þór með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem mótframbjóðanda. Hún hlaut dyggan stuðning Bjarna Benediktssonar, Jóns Gunnarssonar og kvennafylkingarinnar í flokknum, sem Hildur tilheyrir. Fyrir fjórum árum tryggði Guðlaugur Þór Eyþóri sigur í leiðtogaprófkjöri sjálfstæðismanna í borginni.
Ólöf hefur ákveðin tengsl inn í borgarstjórnarflokk sjálfstæðismanna. Bróðir hennar er Jón Skaftason, eiginmaður Hildar Björnsdóttur borgarfulltrúa sem Ólöf stillir upp sem helsta keppinauti Eyþórs Arnalds um oddvitasætið í Reykjavík. Sjálf hefur Ólöf verið virk í starfi Sjálfstæðisflokksins og bauð sig m.a. fram til stjórnar Varðar í vor þegar tekist var á um völdin í aðdraganda prófkjörs. Kosið var um sjö stjórnarsæti og unnu stuðningsmenn Guðlaugs Þórs þau öll.
Ólöf segir heimildarmenn innan Sjálfstæðisflokksins hafa lýst vonbrigðum með Eyþór fyrir að hafa ekki tekist að mynda meirihluta úr „feiknasterkri stöðu“ eftir síðustu borgarstjórnarkosningar sem skiluðu flokknum stærsta borgarstjórnarflokknum. Hún lætur þess ógetið að til að mynda meirihluta hefði Sjálfstæðisflokkurinn þurft að fá til samstarfs við sig Viðreisn og Kolbrúnu Baldursdóttur frá Flokki fólksins, auk Vigdísar Hauksdóttur hjá Miðflokknum. Öðrum var ekki til að dreifa þar sem Framsókn náði ekki einum einasta fulltrúa í 23 manna borgarstjórn Reykjavíkur 2018.
Fáum dylst að þarna var Sjálfstæðisflokkurinn ekki í „feiknasterkri stöðu“ heldur króaður af úti í horni. Raunar var þetta næstversta útkoma flokksins í borgarstjórnarkosningum frá upphafi, eilítið skárri en afhroðið 2014. Hafi flokknum hugnast að fara í meirihluta með Flokki fólksins og Miðflokknum, sem verður að telja vafasamt, er ljóst að Viðreisn var aldrei á leiðinni í slíkan meirihluta. Hefði flokkurinn tekið að sér að verða hækja laskaðra sjálfstæðismanna og tveggja örflokka til að fella farsælan meirihluta og vinsælan borgarstjóra blasir við að ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum um örlög Viðreisnar.
Margar áhugaverðar pælingar koma fram í fréttaskýringu Ólafar. Hún segir óljóst hvort Dagur B. Eggertsson muni áfram leiða Samfylkinguna í borginni og segir það miklu breyta hvort hann haldi áfram eða yfirgefi ráðhúsið. Undirritaður hefur ágætar heimildir fyrir því að Dagur sé staðráðinn í að halda áfram en muni tilkynna það þegar honum finnst tíminn réttur, enda hefur hann sjálfur nýlega sagt að hann eigi margt ógert.
Þá gerir Ólöf því skóna að mikil spenna sé hjá Framsókn sem hugsi sér gott til glóðarinnar í borginni vegna góðs árangurs í báðum Reykjavíkurkjördæmunum í þingkosningunum. Vel má vera að framsóknarmenn séu yfir sig spenntir en þess er ekki að vænta að þeir ríði feitum hesti frá borgarstjórnarkosningunum í vor. Hvorki Ásmundur Einar Daðason né Lilja Alfreðsdóttir verða þá í framboði en sigur Framsóknar í borginni, og jafnvel á landsvísu, í þingkosningunum í september byggðist á miklum vinsældum Ásmundar Einars og ánægju kjósenda með hans verk. Nái Framsóknarflokkurinn inn borgarfulltrúa í vor bendir ennfremur allt til þess að það verði á kostnað Miðflokksins þannig að Vigdís Hauksdóttir missi sitt sæti.
Ólíklegt er að Sjálfstæðisflokkurinn verði í aðstöðu til að mynda meirihluta í Reykjavík. Samkvæmt könnunum er fylgi flokksins í borginni í sögulegu lágmarki og úrslit þingkosninganna staðfestu það. Á sama tíma er meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar vinsæll meðal kjósenda og Dagur borgarstjóri nýtur trausts.
Vandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er margþættur. Flokkurinn er klofinn, jafnvel margklofinn. Þótt hann eigi átta af 23 borgarfulltrúum getur nær enginn borgarbúi nefnt fleiri en tvo þeirra, þau Eyþór og Hildi. Aðrir borgarfulltrúar eru að mestu andlits- og nafnlausir í hugum kjósenda. Eyþór og Hildur eru ósammála í helstu málum þannig að kjósendur eiga bágt með að átta sig á stefnu flokksins í borgarmálum. Þá virðist sá hluti Sjálfstæðisflokksins í borginni, sem er andvígur Borgarlínu, ekki aðeins vera á skjön við marga sjálfstæðismenn í Reykjavík, heldur einnig alla sveitarstjórnarmenn sjálfstæðismanna í öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.
Stjórnarformaður Borgarlínunnar er Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra og sjálfstæðismaður fram í fingurgóma. Varaformaður stjórnarinnar er Gunnar Einarsson, bæjarstjóri sjálfstæðismanna í Garðabæ. Framkvæmdastjóri Borgarlínunnar er Davíð Þorláksson, fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þetta eru mennirnir sem íhaldssamasti armur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík berst gegn undir forystu Eyþórs Arnalds. Er nema von að borgarbúar eigi erfitt með að átta sig á Sjálfstæðisflokknum?
Innan Sjálfstæðisflokksins er öflug kvennafylking. Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar er þar í forystu valins liðs sem inniheldur báða kvenráðherra flokksins, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Í þessum hópi, sem kemur mikið saman og skemmtir sér, eru líka Hildur Björnsdóttir, Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona Bjarna Benediktssonar, Ólöf Skaftadóttir og fleiri. Þessi hópur styður þétt við bakið á Hildi í komandi slag í gegn Eyþóri Arnalds.
Ekki er þó með öllu víst að slagurinn um forystusætið hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík verði á milli Eyþórs og Hildar. Heyrst hefur að Bolli Kristinsson, fyrrum kaupmaður, og aðrir áhrifamenn í flokknum láti nú leita með logandi ljósi að þriðja kostinum í stað Eyþórs og Hildar. Ekki hefur það enn borið árangur en þó mun ekki vera staldrað við nöfn Sigríðar Andersen eða Brynjars Níelssonar, atvinnulausra fyrrverandi þingmanna sem ýmsir segja horfi vonaraugum til borgarstjórnar.
- Ólafur Arnarson