Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, fékk þrjá svokallaða Artist Gold VIP boðsmiða á tónleikahátíðina Secret Solstice. Tónleikahátíðin hlaut 8 milljóna króna styrk frá Reykjavíkurborg þetta árið. Miðaverð á hvern miða sem höfðu samskonar aðgang að tónleikasvæðinu voru um 150 þúsund krónur og voru því heildarverðmæti miðanna sem borgarstjóri þáði um 450 þúsund krónur.
Hringbraut hefur undir höndum tölvupóst sem var sendur á alla borgarfulltrúa vegna miða á tónleikahátíðina. Þar kom fram að einn miði á tónleikahátíðina hafi verið í boði fyrir hvern borgarfulltrúa. Hringbraut sendi fyrirspurn á alla borgarfulltrúa Reykjavíkur um hvort þeir hafi nýtt sér miðana. Samkvæmt tölvupóstinum stóð öllum borgarfulltrúum til boða að fá boðsmiða fyrir einn á hátíðina til að þeir gætu fylgst með hátíðinni og uppfyllt eftirlitsskyldu sína. Miðar sem voru í boði fyrir borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar voru venjulegir VIP miðar og kostuðu þeir tæplega 30 þúsund krónur. Þetta staðfestu þeir borgarfulltrúar sem Hringbraut hafði samband við og sögðust þeir ekki hafa haft aðgang að sama svæði og listamenn hefðu aðgang að.
\"Já ég kíkti á svæðið á sunnudagskvöldinu og fékk þrjá miða. Þetta voru miðar sem voru eins og listamenn fengu þannig að ég gat farið um allt svæðið, þar á meðal svo kallað VIP svæði,“ svaraði Dagur vegna fyrirspurnar Hringbrautar um málið.
Í samtali við Hringbraut segir Víkingur Heiðar Arnórsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, að borgarstjóri hafi þó ekki fengið aðgang að ókeypis drykkjum né ókeypis mat, en staðfestir að Dagur hafi haft aðgang að sama svæði og þeir miðar sem kostuðu 150 þúsund krónur. Spurður af hverju Dagur hafi fengið þrjá miða segir Víkingur að sumir hafi beðið um auka miða en aðrir ekki.
„Ég er náttúrulega framkvæmdastjóri og ef ég sé hag að bjóða þér sem fréttamanni, þá get ég alveg boðið þér. Þetta er bara pólitík. Stundum sér maður bara hag að gera það,“ segir Víkingur í samtali við Hringbraut.
Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, staðfesti einnig við Hringbraut að hann hafi fengið tvo VIP miða á tónleikahátíðina, en heildarverðmæti þeirra miða er um 60 þúsund krónur. Skúli hefur heldur ekki skráð miðana í hagsmunaskráningu sína.
Samkvæmt reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa kemur fram að sé borgarfulltrúum gefin gjöf fyrir meira en 50 þúsund krónur skulu þeir skrá nafn þess sem gefur, tilefni gjafar, hvers kyns hún er og hvenær hún er látin í té Hvorki Dagur B. Eggertsson né Skúli Helgason hafa enn skráð miðana sem gjöf, en tæpur mánuður er liðinn frá því hátíðin var haldin.
Í svari við fyrirspurn Hringbrautar segir Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, að hann hafi nýtti sér einn miða og hafi skráð hann sem gjöf frá skipuleggjendum hátíðarinnar í sérstakt skjal þar sem hann heldur utan um allar gjafir sem hann fær á meðan hann situr í borgarstjórn Reykjavíkurborgar. Skráði hann einnig verðmæti miðans sem var tæplega 30 þúsund krónur. Sjá má hvernig Pawel skráði miðann sem hann fékk hér.