Útlendingadekur okkar Íslendinga tekur stundum á sig hinar kjánalegustu myndir. Nú ríður Costco-æði yfir landið, yfirtekur fjölmiðlana í nokkra daga og leiðir til þess að þúsunir forvitinna landsmanna mæta á staðinn og láta eins og þjóðhátíðardagurinn sé runninn upp með blöðrum, pylsum og kandíflosi.
Búast má við umferðartruflunum í Garðabænum í nokkra daga, alla vega fram yfir næstu helgi. Þá verður nýjabrumið farið af þessu og lífið heldur áfram sinn vana gang. Fólk verður þá búið að átta sig á því að vöruúrvalið er takmarkað og óþjálft og ekki allt sem sýnist. Það mun fljótt fækka í hópi þeirra sem nenna að burðast heim með 5 kílóa sekki af sykri út í kaffið, 12 kassa af Ceríosi í plastumbúðum og tugi lítra af gosdrykkjum af því að vörurnar fást á svo góðu verði.
Óhætt er að rifja upp þegar Bauhaus opnaði byggingarvöruverslun sína fyrir nokkrum árum í námunda við Korpúlfsstaði. Sjónvarpsstöðvarnar náðu vart andanum fyrir spenningi og mátu það svo að 100,000 manns hefðu komið í verslunina fyrstu helgina. Svo mikil var örtröðin að menn bókstaflega tókust á, slóust, um bílastæði. Svo liðu nokkrir dagar og þá voru flestir búnir að gleyma Bauhaus og héldu áfram að versla á sínum venjulegu stöðum. Sama gerðist þegar Elko opnaði á sínum tíma að ekki sé minnst á Rúmfatalagerinn. Styttra er síðan Kostur fór af stað og bauð vörur á lægstu verðum.
Í öllum þessum tilvikum tókst að vekja forvitni landans því við erum svo nýjungagjörn. Alltaf eitthvað nýtt eins og “réttur dagsins” eða “stúlka mánaðarins”. Eftir stuttan tíma er nýjabrumið dottið af og lífið heldur áfram sinn vana gang.
Eins verður nú þó Costco hafi reitt hærra til höggs en áður hefur sést hér á landi. Costco hefur einnig tekist mætavel að heilaþvo marga fjölmiðla þannig að þeir hafa látið nota sig miskunnarlaust í áróðri Costco. Þeir hafa látið taka sig á löpp og mikið hefur skort á gagnrýna fjölmiðlun. Einnig hjá fjölmiðlum sem reyna stöðugt að halda því fram að þeir séu faglegri og heiðarlegri en flestir aðrir. En fólk lætur ekki blekkjast og dregur sínar eigin ályktanir.
Því mun verslunarstarfsemin á höfuðborgarsvæðinu leyta jafnvægis innan skamms. Og fólk mun halda áfram að gera innkaup sín með venjulegum hætti í Bónus, Nettó, Krónunni, Melabúðinni, Elko, Samkaupum eða hvað það nú heitir þegar nýjabrumið verður dottið af Costco.
Þá munu fjölmiðlar finna sér nýtt æði til að fjalla um. Eitthvað sem tryllir fólkið í stuttan tíma.
rtá.