Cocoa Puffs hverfur af íslenskum markaði

General Mills hefur nýlega upplýst Nathan & Olsen, umboðsaðila sinn á Íslandi, um að vörumerkin Cocoa Puffs og Lucky Charms séu ekki lengur í boði fyrir íslenskan markað. Þetta kemur til vegna breytinga á uppskrift sem felur í sér viðbætt náttúrulegt litarefni sem samræmist ekki evrópulöggjöf sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu.

„Þetta er auðvitað mjög leiðinlegt fyrir okkur og íslenska neytendur,“ segir Lísa Björk Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Nathan & Olsen, í tilkynningu sem barst fjölmiðlum.

Bent er á það að bæði Cocoa Puffs og Lucky Charms hafi átt fastan sess á heimilum landsmanna um áratuga skeið og notið mikilla vinsælda fólks á öllum aldri. Hafa þessar vörur verið nokkuð eftirsóttar. Staðreyndin sé þó sú að hér hafi verið innleidd evrópulöggjöf sem getur verið hamlandi þegar kemur að því að bjóða neytendum fjölbreytt úrval af bandarískum vörum.

Í tilkynningu frá General Mills segir framleiðandinn meðal annars að unnið sé hörðum höndum að því að þróa aðrar lausnir í framleiðslu á vörum fyrir Evrópumarkað sem þjónað geti íslenskum neytendum með sama ánægjulega hætti og verið hefur til þessa.