Cameron með sdg í vasanum

Mikið var látið með það í fréttum í gær að breskur forsætisráðherra hefði ekki heimsótt ráðamenn í Reykjavík síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Ekki fyrr en nú.

Sem er eiginlega með ólíkindum miðað við hve stutt er á milli landanna tveggja.

Eflaust hafa deilurnar við Breta um fiskinn í okkar landhelgi, þorskastríðin, haft nokkuð um stirðleikana að segja.

En nú er Cameron kominn með friðu föruneyti og maður spyr sig: Hví nú?

Svarið er augljóst. Vegna  þess hve stutt er á milli landanna tveggja. Og vegna þess að við eigum svolítið sem Bretar ásælast.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hafa nefnilega ákveðið á fundi í sjálfu Alþingishúsinu að setja á laggirnar vinnuhóp sem verður falið að skoða lagningu sæstreng milli Íslands og Bretlands. Ekki þarf neina pólitíska umræðu um það. SDG lætur verkin tala. Hendur fram úr ermum!

Samkvæmt breskum fjölmiðlum kallast vinnuhópurinn Energy Task Force og segir fréttastofa Rúv og hefur eftir aðstoðarmanni SDG, Jóhannesi Þór, að áhugi Breta á sæstrengnum sé „mjög raunverulegur“.

En ekki hvað, Jóhannes Þór? Sæstrengurinn hefur verið ræddur á hverjum einasta fundi í samskiptum ríkjanna undanfarin ár og á vef Sky-fréttastofunnar í morgun kemur fram að Bretar hafi verið varaðir við að raforkuverð gæti hækkað á þessu ári þar sem loka þyrfti nokkrum orkuverum.

Ljóst er að mjög skiptar skoðanir eru um hvort Ísland eigi að flytja út rafmagn í gegnum sæstreng til Bretlands. En hagsmunir Breta eru miklir. Og ef þeir halda vel á spöðunum gegn uppblásnum íslenskum stjórnvöldum sem eru enn svo ánægð með haftalendingu gærdagsins (þótt niðurstaðan sé ekki enn í hendi – ekki frekar en áður) að Íslandmet varð að heimsmeti með 30 sekúndna millibili í tveimur viðtölum í gær við sömu spurningu þegar SDG var að skrúfa sig upp í efstastigsumræðu sem aldrei fyrr í viðtali við Ríkisútvarpið, gæti Bretum vel orðið ágengt.

Ef Bretar halda vel á spöðunum gætu þeir nú bætt þann skaða sem þeir urðu fyrir hagsmunalega þegar áræðin og heiðarleg íslensk stjórnvöld sögðu hingað og ekki lengra. Þá gerðu þorskastríðin okkur heimsfræg, heimsfræg í alvörunni, ekki eins og nú bara í höfðinu á Sigmundi Davíð.

Þess vegna er Cameron hér. Vegna breskra hagsmuna. Og það verður að segjast eins og er að ef veðbankar taka mið af ákefð íslenskra stjórnvalda til að koma hagsmunum komandi kynslóða í verð sem fyrst eru ágætis líkur á að Cameron gæti orðið vel ágengt. Forstjóri Landsvirkjunar hefur einnig ítrekað talað fyrir því að selja það sem Bretar ásælast mest, íslenska orku. Gildir einu þótt  stórhækkað raforkuverð fyrir íslenskan almenning yrði niðurstaðan eins og allt bendir til. Landsvirkjun myndi græða helling og að því loknu er fínt að einkavæða hana!

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst á KVIKUNNI á hringbraut.is)