Byrjaði að borða spírur og læknaðist

Katrín H. Árnadóttir sagði kraftaverkasögu sína í heilsu- og útivistarþættinum Lífsstíl á Hringbraut síðastliðið mánudagskvöld en hún þjáðist af viðvarandi verkjum í öllum líkamanum um áratugarskeið áður en hún breytti alveg um mataræði, byrjaði á spírum - og læknaðist varanlega.


Katrín segir í þættinum að hún hafi verið orðin skugginn af sjálfum sér á fertugsaldri eftir langvarandi verki um allan líkamann. Einu gilti hvað hún fór til margra lækna, þeim féllust einfaldlega hendur frammi fyrir vanda hennar og gátu ekki gert neitt annað en að dæla meiri lyfjum í hana eftir því sem verkirnir jukust og tóku sér lengri búsetu í skrokki hennar. Aðframkomin af sífelldri þreytu og kraftleysi afréð Katrín, sem á þeim tímapunkti var búin að eignast tvo lítil börn seint á fertugsaldri, að við svo búið mætti ekki standa; hún yrði að finna lausn á meini sínu ef hún ætlaði að takast á við móðurhlutverk sitt af festu og ábyrgð. Hún hafði heyrt af heilsuhæli í Vesturheimi þar sem áhersla var lögð á grænmetisfæði, ekki síst spírur sem samkvæmt þarlendum fræðum gætu annarri fæðu betur heinsað líkamann af óæskilegum efnum og byggt hann upp á ný. 


Katrín hélt utan fyrir átta árum, dvaldi á hælinu í tvær vikur - og umskiptin urðu alger. Hún læknaðist varanlega af öllum sínum verkjum og öðlaðist fulla starfsorku á stuttum tíma. Í raun og sann frelsuðu spírurnar hana undan oki langvarandi veikinda sem komu til af röngu mataræði og stöðugri lyfjainntöku til að bregðast við vandanum. 


Katrín segir spírur gríðarlega mikilvægar fyrir meltinguna, enda séu í þeim saman komin kraftmestu efni nátúrunnar sem hreinsi líkamann og fylli hann mikilli orku. Spírur séu ríkar af andoxunarefnum og hafi auk þess að geyma ensím sem styrki og bæti meltinguna til mikilla muna.


Horfðu á klippur úr þættinum:


Smelltu til að horfa: