Byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í?

Íslendingum hefur gengið betur í baráttunni við Covid-19 en flestum öðrum þjóðum. Segja má að lánið hafi leikið við okkur í því tilliti, ef þá hægt er að nefna lán og Covid í sömu andrá. Til allrar hamingju hefur ríkt nánast órofa samstaða um það á pólitíska sviðinu að fylgja ráðum færustu sérfræðinga varðandi sóttvarnir og hafa samflot með ESB um öflun bóluefna. Hætt er við að staðan hér á landi hefði orðið önnur ef þessi skynsemisnálgun hefði ekki orðið ofan á. Í bæði fyrstu og þriðju bylgju farsóttarinnar var Landspítalinn við þolmörk.

Um síðustu mánaðamót var öllum hömlum innanlands aflétt auk þess sem landamærin voru opnuð að nýju. Ástæðan var vitanlega sú að veiran var nær horfin hér innanlands, auk þess sem búið var að bólusetja nær alla fullorðna Íslendinga að minnst kosti einu sinni og vel flesta tvisvar.

Vitað var að veiran var síður en svo horfin í öðrum löndum og ný afbrigði farin að láta á sér kræla. Þess vegna lá fyrir að veiran kæmi hingað til lands um leið og landið yrði opnað á nýjan leik. Ekki þarf að koma okkur neitt á óvart að nákvæmlega það skuli hafa gerst. Nú er veiran aftur komin á kreik og því miður bendir margt til þess að fjórða bylgjan sé hafin þó að vissulega voni allir að vel heppnaðar bólusetningar dragi úr tjóni af völdum hennar.

En veiran er komin inn í landið og því er í raun tómt mál að tala um að ætla að bregðast við henni með því að herða reglur á landamærunum. Við verðum að líta okkur nær. Það er hér innanlands sem við verðum að bregðast við. Við gerum það sjálf, hvert og eitt, með því að haga okkur ekki eins og fífl, með því að gæta áfram varúðar og sinna sóttvörnum.

Réttmætt er að velta fyrir sér hvort ekki sé fremur ástæða til að taka á sóttvörnum innanlands en að reyna að byrgja brunninn sem barnið er þegar dottið ofan í? Ekki fara aftur í hömlur þriðju bylgju – þess ætti ekki að gerast þörf – heldur nota heilbrigða skynsemi. Nú er hálfur mánuður í verslunarmannahelgina. Er heilbrigðiskerfið reiðubúið að mæta því álagi sem getur fylgt í kjölfar fjölsóttra útihátíða? Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur varað við því að jafnvel fullbólusettir einstaklingar geti veikst alvarlega af veirunni.

Verðum við ekki að hugsa okkur alvarlega um núna?

- - Ólafur Arnarson