„Maður hefur verið svolítið hissa að þetta hefur ekki komið upp fyrr. Það eru náttúrulega einstaklingar í samfélaginu hér, fullorðnir einstaklingar, sem hvorki hafa fengið bólusetningu né smitast af mislingum á sínum tíma. Þannig að þetta fólk er móttækilegt og ef fólk er að ferðast á svæðum þar sem mislingar eru að geysa þá er ekkert ólíklegt að fólk veikist, og svo kemur það heim með þessa veiki. Það er dálítið skrýtið að það skuli ekki hafa gerst meira af þessu á undanförnum árum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og telur Ísland hafa verið nokkuð heppið að þessu leyti, enda margir búsettir hér á landi sem ferðist reglulega til framandi landa.
Þórólfur er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem hann ræðir fjögur mislingasmit sem hafa greinst á skömmum tíma hér á landi.
Tilfellin fjögur eru rakin til ferðamanns sem var smitaður af mislingum og kom frá Lundúnum til Íslands um miðjan febrúar. Hann flaug svo til Egilsstaða og í því flugi smituðust þrír til viðbótar; tvö börn sem ekki hafa náð 18 mánaða aldri og voru því ekki bólusett, og fullorðinn einstaklingur.
„Þetta kemur til þannig að það er einstaklingur sem veikist úti í Filippseyjum og ferðast hingað til Íslands, það gengur mjög greiðlega, hann nær til Íslands á einum sólarhring. Hann er veikur á leiðinni og smitandi þannig á leiðinni, flýgur svo hér í innanlandsflugi og smitar þannig þessa þrjá farþega sem nú hafa verið greindir,“ segir Þórólfur
Síðasti mislingafaraldur á Íslandi var árið 1977 en síðan þá hafa ekki komið upp jafn mörg tilvik á einu ári og hafa greinst á síðustu dögum. Í dag eru á bilinu 90-95 prósent fólks í hverjum fæðingarárgangi hér á landi sem er bólusett fyrir mislingum.
Aðspurður um hvort hann búist við fleiri smituðum á næstunni segir Þórólfur að hann búist allt eins við því að það verði fleiri tilfelli en enginn faraldur.
Nánar er rætt við Þórólf í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.