Búið til kryddsmjör fyrir sumarið

Það er náttúrlega ekkert betra en bragðmikið kryddsmjör yfir sætu eða hvítu kartöflurnar með grillmatnum í sumar. En þá er að sýna fyrirhyggju, framleiða góðan slurk fyrir útimatreiðsluna alla fram á haust. Þetta er málið: Takið ykkur tíu veglega hvítlauksgeira í hönd og helst enga titti og merjið þá með svona 100 grömmum af indælis timjan og slatta af grófu salti í mortéli. Blandið svo öllu saman við svo sem eins og kíló af ósöltu smjöri - og ef þið eruð í alveg sérstöku stuði er óvitlaust að setja dágóða handfylli af savory-kryddjurt út í allt heila galleríið en það gefur bæði lit og bragð sem svíkur engan. Svo er bara að koma þessu fyrir í hæfilega stórum plastpoka til að geyma í ískápnum eða frystinum, allt eftir því hvað líður langur tími milli útigrillsiðkunar ...