Flokksræðið hér á landi hagnast á því að ekki verði gerðar breytingar á stjórnarskránni. Þetta sagði Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins en hún var gestur fréttaskýringaþáttarins Kvikunnar á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöld.
Katrín sagði brýnt að knýja fram lýðræðislegar umbætur með breytingum á stjórnarskrá. Allt of mikið vald væri saman komið hjá íslenskum stjórnmálaflokkum. „Það er ekki þannig að flokkarnir eigi að vera sjálfskipaðir eigendur valdsins, það er búið að taka valdið af fólkinu,“ sagði Katrín.
Hún ræddi stjórnarskrána sem löngu úrelt plagg og ræddi sérstaklega þjóðaratkvæði og auðlindaákvæði sem mikilvægar lýðræðislegar breytingar, enda væru borgarar upplýstir og fullbærir til að taka ákvarðanir um eigin hag. En það væru ekki bara valdaflokkarnir sem hömluðu gegn breytingum samanber árangursleysi stjórnarskrárnefnda hér á landi. Tilteknir atvinnuvegir líkt og álvinnslan og útgerðin vildu sem dæmi ekki sjá sterk ákvæði um náttúruvernd í nýrri stjórnarskrá, væru þar í liði með forseta Íslands sem mjög stæði í vegi fyrir breytingum sbr. þingræðu hans í haust. Óhugsandi er nú talið að tími gefist til að kjósa um stjórnarskrármálið samhliða forsetakosningum næsta vor. Hún sagði Ólaf Ragnar Grímsson snilling í spuna. Aldrei væri nein tilviljun á bak við ummæli hans, hver sem þau væru.
„Við erum að berjast við gamla drauga en munum sigra orrustuna að lokum.“