Brynjar Níelsson segist einlæglega þeirrar skoðunar að umræða um hatursorðræðu sé komin á mjög skrýtnar brautir. Brynjar segir í Podcasti Sölva Tryggvasonar að ákveðinn hópur vilji eigna sér hvað sé hatursorðræða og hvað ekki:
„Menn eru farnir að víkka hugtakið um hatursorðræðu svo svakalega að það á nánast að vera refsivert ef allir eru ekki á sömu skoðun og þú. Svo er þetta í raun ákveðinn hópur sem vill eiga þessa umræðu og fá að ákveða hvað er hatursorðræða og hvað ekki. Oft á tíðum finnst þessu fólki sjálfu alveg sjálfsagt að ráðast á einstaklinga á netinu og spyrja sig aldrei að því hvort það sé hatursorðræða. En svo þegar fólk er á annarri skoðun en þessi hópur er það allt orðið hatursorðræða. Þetta er ekki nýtt af nálinni og var gert í gömlu ráðstjórnarríkjunum. Það að tala gegn stjórnvöldum og meirihlutanum var þá landráð og þá varstu að eyðileggja samfélagið og þá var notað orðið hatursorðræða eins og nú. Fyrsta skrefið var útilokun, svo var það fangelsun og svo var það bara Síbería. Allir einræðisherrar byrja smátt og eru alltaf að berjast fyrir mjög góðum málstað. Saga fasismans er saga af fólki sem í upphafi sagðist vera að berjast fyrir mjög göfugum málstað. En svo verður ofstopinn bara meiri og meiri. Það er galin umræða að fólk megi ekki hafa ólíkar skoðanir. Fólk hlýtur að sjá að sú þróun sem er í gangi er á margan hátt óhugnanleg ef hún fær að halda áfram óbeisluð og enginn stígur niður fæti.“
Brynjar segist hugsi yfir því hvort umburðarlyndi sé almennt á undanhaldi miðað við umræður á milli fólks:
„Mér finnst umburðarlyndi orðið mun minna en það var. Þetta er oft á tíðum orðið þannig að ef þú ert ekki sammála mér, þá ertu óvinur minn. Sú hugsun virðist vera orðin meira ríkjandi, sem kann ekki góðri lukku að stýra. Við verðum að hafa rými til að vera stundum ósammála í frjálsu samfélagi. Ef fólk sest niður og ræðir málin kemst það oft að því að það ber í raun minna á milli en fólk hélt. En ef það er farið beint í þessa hugsun um að þeir sem eru ósammála séu óvinir og vont fólk er erfitt að finna leiðina til baka.”
Brynjar segist almennt hafa þá reglu að tjá sig ekki um fólk á netinu, nema það sjálft sé að gera það við annað fólk:
„Ég stramma mig oft af og segi alls ekki allt sem ég er að hugsa á netinu, þó að það sé ákveðinn hópur sem er mjög ósáttur við mig. Ég kemst líka oft að því að ég hafi farið fram úr mér og þá sé ég að mér og tek skref til baka. Ég get alveg skilið að fólk verði stundum fúlt út í mig, en ég reyni að beina orðum mínum eingöngu að þeim sem hafa sjálfir verið að hjóla í aðra á netinu. Ég myndi aldrei hafa uppi sterk orð um fólk sem hefur ekki sjálft verið mikið að láta til sín taka á netinu. Það kemur fyrir að mér blöskrar svo gjörsamlega ofstopinn í ákveðnu fólki að ég lít svo á að það sé réttlætismál að segja það sem mjög margir eru að hugsa, en fæstir þora að segja. Það sem pirrar mig einna mest er þegar frægt fólk ætlar að slá um sig og fá punkta fyrir dyggðaskreytingar þegar það hefur ekki einu sinni kynnt sér málin. Svo er þetta fólk oft svo svakalega reitt og kallar fólk illvirkja, ómenni og fleira í þeim dúr, bara ef fólk er ósammála. Ég reyni nú yfirleitt að vera með léttan undirtón þegar að ég er að atast í þessu fólki, enda gerir reiði manni ekkert gott.“