Brynjar fékk óvænt símtal: „Hann sagði að ég væri mjög gallaður maður og fáviti að auki“

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður ráðherra og fyrrverandi þingmaður, lýsir óvæntu símtali sem hann fékk á dögunum í færslu sem birtist á Facebook-síðu hans í dag. Hann segir að á hinni línunni hafi verið mikill fræðimaður sem hafi svo sannarlega látið hann heyra það.

Hann tekur fram að hann var ekki að ræða við skemmtikraftinn Stefán Ingvar Vigfússon, en undanfarið hafa þeir tveir háð mikla ritdeilu.

„Það hafði samband við mig mikill fræðimaður, sem les eingöngu Stundina og Kjarnann og hlustar á RUV, og hélt yfir mér mikinn reiðilestur. Hann sagði að ég væri mjög gallaður maður og fáviti að auki. Ef ég færi í örorkumat yrði ég metin að minnsta kosti 170% öryrki. Rétt er að taka það fram að þetta var ekki Stefán Ingvar Vigfússon, uppistandarinn knái, sem ég hélt fyrst að væri nemandi í grunnskóla, og hefur þó sagt mig aumasta mann landsins. Það sem ég fékk að heyra var þetta helst: Ég hefði enga samkennd og hataði fátækt fólk, vinstri menn, konur, hinsegin fólk og sérstaklega hvali, sem væru svo skynugar skepnur auk þess mikilvægar til berjast gegn loftslagsbreytingum. Ég hlustaði ekki á vísindamenn í kynjafræðum og loftslagsfræðum. Menn eins og ég væru hættulegir og ætti að refsa mér og öðrum afneitunarsinnum á staðreyndum í þessum vísindum. Þar að auki væri ég leiðinlegur og einstaklega ófríður. Þannig voru þau orð.“

Þá hefjast mótmæli Brynjars við fullyrðingunum sem hann lýsir að ofan. Mótmælunum mætti þó einnig lýsa sem eins konar endurminningum Brynjars.

„Ég ætla ekki að mótmæla fullyrðingunni í lokasetningunni en öðru ætla ég að andmæla að mestu. Ég fæddist síður en svo með silfurskeið í munni. Foreldrar mínur voru í tíu systkina hópi, alin upp í fátækt og rekin að heiman þegar þau voru enn börn að aldri til að sjá fyrir sér. Þar að auki var öll móðurættin vinstri sinnuð og tókst ekki að rétta af kúrsinn hjá móður minni fyrr en á níræðisaldri. Þau áttu aldrei möguleika á að sækja sér menntun eða komast í hálaunastörf. En þau voru dugleg og kvörtuðu ekki undan örlögum sínum.

Þar sem ég ólst upp í Hlíðunum endaði ég í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þar voru nær eingöngu vinstri menn og mjög róttækir í þá daga. Gengu um í Álafossúlpum eða lörfum, reyktu gjarnan pípu og með Rauða kverið eftir Mao í þýðingu Brynjólfs Bjarnasonar undir hendinni og boðuðu byltinguna með góðu eða illu. Þetta voru gáfuðustu ungmenni landsins að eigin áliti og vísuðu gjarnan í vísindi skoðunum sínum til stuðnings. Úr þessu umhverfi komu vinir mínir svo ekki get ég hatað vinstri menn. Þá eru margir af mínum bestu vinum hinsegin og ég sjálfur öðruvísi en fólk er flest. Ég hata síður en svo konur þótt mér finnist lítið til þessa feminisma koma, sem gerir lítið annað en að tala konur niður í endalausri fórnarlambavæðingu. En það er rétt að ég tel hvali hvorki skynugri né gáfaðri en önnur spendýr. Dýr sem í hundraðatali synda upp á strönd í opinn dauðann si svona geta ekki verið gáfuð. Svo tel ég rétt að nýta allar auðlindir innan hæfilegra marka þótt ekki væri nema til að halda jafnvægi í vistkerfinu.“

Brynjar segir ekki rétt að hann hlusti ekki á vísindin. Þó segist hann meðvitaður um að þau eigi það til að birta ólíkar niðurstöður og eru því síbreytileg. Hann viðurkennir þá að hann sé efasemdarmaður og gefur til kynna að honum verði refsað fyrir það þegar vinstrið komist til valda.

„Það er ekki rétt að ég hlusti ekki á vísinda-og fræðimenn. Við sem erum komnir til ára okkar vitum hins vegar að vísindalegur sannleikur breytist reglulega. Það vita allir sem hafa lesið sögu vísindanna. Svo vitum við líka að pólitík er hluti af vísindum eins og öllu öðru. Ég verð að viðurkenna að ég er í eðli mínu efasemdarmaður, sérstaklega þegar kemur að félagsvísindum en líka þegar náttúruvísindamenn ætla að segja mér hvernig veðurfar og loftslag verður næstu hundruði ára og telja að maðurinn geti stjórnað því með breyttri hegðun. En á sama tíma geta þeir lítið sagt mér með vissu af hverju veður og loftslag breyttist reglulega áður. Ég verð bara að vona að vinstri menn refsi mér ekki fyrir rangar skoðanir þegar þeir ná völdum.“