Óhætt er að segja að pistill Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann hjó að tónlistarmanninum Bubba Morthens hafi vakið athygli.
Brynjar er þeirrar skoðunar – eins og ýmsir aðrir Sjálfstæðismenn – að sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hafi mátt þola ósanngjarna meðferð, til dæmis í Seðlabankamálinu og Namibíumálinu.
Bubbi Morthens sendi ákall til þingmanna um liðna helgi þar sem hann kallaði eftir því að þeir myndu bregðast við árásum fyrirtækisins á Helga Seljan, fréttamann RÚV.
Í pistli sem birtist á vef Vísis í gær fór Brynjar yfir þessi Samherjamál og kom fyrirtækinu til varnar. Í lok pistilsins sendi hann Bubba síðan væna sneið með eftirfarandi orðum:
„Að lokum vil ég segja við poppstjörnur í eldri kantinum, sem hafa áhyggjur af þögn þingmanna um Samherja, að það þarf öflug fyrirtæki, sem geta gert mikil verðmæti úr auðlindum okkar, til að greiða ykkur um hálfa milljón á mánuði í heiðursskyni til æviloka.“
Þessi ummæli vöktu talsverða athygli. Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði til dæmis á Facebook-síðu sinni:
„Hvernig blammerar maður Bubba Morthens? Hvaða spæling nær honum? Hugs hugs. Jú! Að hann sé á listmannalaunum! Landeyða. Letingi. Á framfæri dugnaðarforka eins og Samherjafrænda sem hamist við að draga björg í bú svo að hann geti leikið sér ...
Eða kannski ekki.“
Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, gagnrýndi þessi ummæli einnig og sagði:
„Mikið er púðurskot Brynjars Níelssonar í átt að Bubba ævintýralega vitlaust. Það hefur þurft stór fyrirtæki, lítil fyrirtæki og síðast en ekki síst almenna skattgreiðendur til að borga laun hans á þingi, þóknun hans sem verjanda þegar málskostnaður fellur á ríkið, og undir hann þegar hann ekur vegina, sækir menntun fyrir sig og fjölskylduna eða leitar lækninga.“
Listamaðurinn Jón Óskar tjáði sig undir pistli Brynjars og sagði: „Bubbi þarf enga boxhanska og hann þarf ekki að kýla þig. Þú sérð greinilega um það sjálfur. Þetta er afspyrnuslæmur pistill og þér ekki sæmandi. Annars er ég góður.“