Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins Hannibalssonar, opnar sig um dómsmálið sem nú er í gangi gegn eiginmanni hennar. Eins og kunnugt er sætir Jón Baldvin nú ákæru fyrir að hafa kynferðislega áreitt Carmen Jóhannsdóttur á Spáni fyrir þremur árum. Aðalmeðferð í málinu fór fram í vikunni.
Málið virðist hafa fengið mikið á Bryndísi Schram ef marka má skrif hennar á Facebook í kvöld.
„Mér finnst eins og að á þessu augnabliki sé niðurlæging okkar fullkomnuð - og þar með sé settu takmarki náð,“ segir Bryndís og bætir við: „Þetta verður aldrei fyrirgefið. Ég er örmagna.“
Bryndís bar sjálf vitni í aðalmeðferðinni en hún hefur stutt dyggilega við bakið á eiginmanni sínum frá því að málið kom fyrst í umræðuna. Hún sagði að ef eitthvað hefði gerst í umræddu matarboði á Spáni sumarið 2018 hefði hún séð það. Jón er ákærður fyrir að hafa strokið rass Carmenar í vitna viðurvist.
Fréttablaðið fjallaði ítarlega um aðalmeðferðina og vitnisburð Bryndísar í vikunni og birtist hér að neðan brot úr þeirri umfjöllun.
„Bryndís kom í réttarsal og lýsti kvöldverðinum. Hún talaði hratt. „Ég bað þær velkomnar í mitt hús og bauð þeim upp á mat. Ég hafði ekki sleppt orðinu þegar Laufey bara: „Jón Baldvin, nú skalt þú biðjast afsökunar, þú káfaðir á dóttur minni. Ég er búinn að heyra margar sögur um þig, þú ert ógeðslegur,“ sagði Bryndís.
„Þá stendur Carmen upp og segir: „Mamma ég get svarað fyrir mig sjálf“. Laufey heldur áfram, ég áttaði mig ekki á því hvað hún væri drukkin, hún var búin að hrósa okkur allan daginn, við hefðum hjálpað henni. Allt í einu var hún snúin. Hún var fárveik með kvölum alla daga og tæki sterk lyf á hverjum morgni og mætti ekki drekka ofan í lyfin, en hún var að drekka þarna. Ég fattaði það ekki strax. Hún var búin að drekka frá sér allt vit.“
Bryndís segir að mæðgurnar hafi farið undir eins.
„Maturinn var ekki snertur, við gengum öll niður og hún var komin með farangurinn út í bíl, hún ætlaði ekki að vera lengur. Þær voru með stóran hund hund og lítið barn.“
Hér má lesa umfjöllun Fréttablaðsins um vitnisburð Bryndísar.