Í forvarnarþættinum Fólk og flugeldar, sem sýndur er þessa dagana á Hringbraut, í tilefni áramótanna og tilheyrandi sprenginga á lofti og stundum láði, er farið gerla yfir alla þá öryggisþætti sem fólk þarf að hafa í huga svo ekkert skyggi á skemmtunina.
Í þættinum, sem unninn er í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg og Neyðarlínuna, er meðal annars rætt við bráðalækninn Jón Magnús Kristjánsson sem brýnir fyrir fólki að kæla brunasár með volgu vatni, ekki of köldu - og alls ekki snjó sem geti einmitt gert illt verra, því hann sé einfaldlega of kaldur fyrir sárið og hamli fyrsta bata fyrir vikið.
Annar viðmælandi þáttarins, Jónína Kristín Snorradóttir, verkefnisstjóri forvarna hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg brýnir fyrir fóki að velja skotstaði flugelda og skotkakna í tíma, helst í birtu fyrr um daginn og hafa beri þar í huga að 25 metra fjarlægð sé frá skotsvæðinu í húseignir, bíla og ekki síst áhorfendur sem njóti ekki litadýrðarinnar nema úr hæfilegri fjarlægð. Brýnt sé jafnframt að allir noti hlífðargleraugu, jafnt þeir sem skjóta upp og horfa á - og þá sé einnig viturlegt að nota heyrnarhlífar til að verja heyrnina skakkaföllum á stundum sem þessum.
Jónína Kristín minnir á nýmæli í flugeldasölu björrgunarsveitanna um þessar mundir; eldþráður hafi leyst gömlu stormeldspýturnar af hólmi, en glóðin í honum lifi mjög lengi - og auk þess sé nú boðið upp á sérstök skotrör á sölustöðunum sem hægt er að strekkja með festingum við girðingar til að tryggja öruggt flugtak fyrir raketturnar.
Fólk og flugeldar er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 22:00 og klukkan 23:00 annaðkvöld, en þátturinn verður einnig sýndur regulega allan daginn á morgun og á laugardag.