Rannveig Rist hefur sagt sig úr stjórn Granda. Því hefur verið slegið upp í fjölmiðlum að úrsögn hennar úr stjórninni stafi af óánægju með forstjóraskipti. Því hefur hins vegar verið hvíslað að málið sé ekki alveg eins einfalt og látið er líta út fyrir.
Hermt er að eigendur álversins í Straumsvík, Rio Tinto í Kanada, hafi verið óánægðir með margs konar stjórnarstörf Rannveigar sem hafi tekið drjúgan tíma frá starfi hennar í álverinu. Rio Tinto á Íslandi hf. hefur gengið illa. Samkvæmt riti Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, sem kom út í desember 2017, nam tap fyrirtækisins á árinu 2016 fyrir skatta 4.7 milljörðum króna sem er 10% af veltu ársins.
Eigendur fyrirtækisins munu ekki hafa verið mjög hrifnir af því að Rannveig væri að sinna stjórnarstörfum í alls óskyldum fyrirtækjum álverinu á sama tíma og rekstur þess á Íslandi væri í kreppu. Rannveig hefur setið í stjórn Granda um árabil. Hún var einnig í stjórn Prómens og fyrir mörgum árum gaf hún sér tíma til að gegna stöðu stjórnarformanns Landssímans hf. þegar hann var í eigu ríkisins. Þá hefur hún áður setið í stjórn Verslunarráðs Íslands og einig samfellt í stjórn Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2000.
Það þarf ekki að koma á óvart þó erlendir eigendur Rio Tinto á Íslandi hf. telji að kröftum forstjóra fyrirtækisins sé betur varið í fyrirtækinu sjálfu heldur en á stjórnarfundum úti í bæ. Það á ekki hvað síst við þegar illa gengur og tíunda hver króna af veltu fer beint í tap.
Ekki er óvarlegt að ætla að staða forstjóra í álverinu sé talin fullt starf. Því hljóta eigendurnir að fagna því að Rannveig hafi losað sig við erilsamt stjórnarstarf í Granda. Þeir hafa væntanlega hvatt hana til dáða í því efni.
Rtá.