Kristján Loftsson, Hvalur hf. og aðilar þeim tengdir hafa selt allan hlut sinn í HB Granda hf. til Guðmundar Kristjánssonar í Brim. Alls er um 35% hlut að ræða, kjölfestuhlut í þessu glæsilega sjávarútvegsfyrirtæki.
Hér er um að ræða viðskipti sem nema 22 milljörðum króna sem sýnir þá gríðarlegu verðmætasköpun sem er í sjávarútvegi þrátt fyrir allan barlóm útgerðarmanna og sífelldar kvartanir þeirra vegna hóflegra veiðigjalda sem lögð eru á sjávarútveg vegna afnota af fiskveiðiauðlindinni sem er sameign þjóðarinnar.
Kristján Loftsson hefur verið áberandi í atvinnulífi þjóðarinnar. Annars vegar vegna þeirrar þráhyggju sem hann hefur sýnt vegna hvalveiða við Ísland. Og hins vegar sem umsvifamikill sægreifi. Hvalveiðar við landið eru tímaskekkja sem skaðar ímynd landsins enda er þar um villimannslegar aðfarir að ræða. Nú er svo komið að meira en hálf milljón ferðamanna borgar fyrir hvalaskoðunarferðir árlega. Þá getum við ekki á sama tíma sýnt þann tvískinnung að drepa þessi dýr með köldu blóði og koma óorði á okkur sem siðaða þjóð.
Því miður hefur Kristján Loftsson komið óorði á atvinnulíf landsmanna, einkum sjávarútveg, með skorti á umburðarlyndi gagnvart lauþegahreyfingunni, lífeyrissjóðum og mörgum öðrum samskiptaaðilum.
Það er því viss léttir þegar hann hverfur nú af vettvangi HB Granda þar sem hann hefur gegnt stjórnarformennsku um árabil, allt frá því að Árni Vilhjálmsson féll frá.
Hvalur hf. hefur nú selt öll hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum. Fram hefur komið að Kristján og systir hans eiga rúm 40% í félaginu. Ekki má gleymast að fjölskylda Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á nálægt 30% í Hval hf.
Það er ekkert nema gott um það að segja að hagsmunatengsl formanns Sjálfstæðisflokksins við sjávarútveg hverfi nú með 22ja milljarða sölu Hvals hf. á eignarhlutum í HB Granda. Vonandi leiðir það til minni fyrirstöðu Sjálfstæðisflokksins við álagningu sanngjarnra veiðileyfagjalda í sjávarútvegi.
HB Grandi er stórglæsilegt alhliða fyrirtæki í sjávarútvegi. Guðmundur í Brimi á eftir að hafa jákvæð áhrif á framvindu þessa góða fyrirtækis.
Stjórnvöld, hagsmunasamtök og allt skynsamt fólk þarf svo að taka höndum saman um að stöðva skaðlegar hvalveiðar við Ísland og sýna umheiminum að hér búi siðað fólk.
Rtá.