Í Morgunblaðinu í dag, fimmtudaginn 10. október, birtist tilvitnanaflétta sem vert er að brjóta til mergjar. Ritstjórar blaðsins vitna í Staksteinum í skrif fyrrverandi ritstjóra þess, sem aftur vitnar í grein eftir Owen Paterson þingmann breska Íhaldsflokksins í Daily Telegraph um hnignun sjávarútvegs í Bretlandi.
Í þessari tilvitnanafléttu lætur fyrrverandi ritstjóri að því liggja að Viðreisn og Samfylking vilji fórna íslenskum sjávarútvegi á altari Evrópusambandsins. Núverandi ritstjórar fullyrða að það vilji fleiri og þar á meðal þeir sem síst skyldu. Þannig hafi núverandi ríkisstjórnarflokkar gefið frá sér hagsmuni landbúnaðarins þvert á gefin loforð og þeir hafi gefið frá sér úrslitaráð yfir orkumálum þvert á gefin loforð og gegn stjórnarskrá. Og fullyrt er að næst muni þeir gefa frá sér sjávarútveginn; annað væri ekki rökrétt.
Af hálfu núverandi ritstjóra Morgunblaðsins er tilgangur tilvitnanafléttunnar augljóslega sá að telja lesendum trú um að ríkisstjórnarflokkarnir séu síst betri en Viðreisn og Samfylking.
En hvað er það í skrifum breska íhaldsþingmannsins sem gefur ritstjórum Morgunblaðsins tilefni til að benja ríkisstjórnarflokkana svo djúpt?
Jú, breski þingmaðurinn fullyrðir að afleiðing af sameiginlegri fiskveiðistefnu Evrópusambandsins hafi komið fram í því að breskum fiskiskipum hafi fækkað úr 9200 árið 1995 niður í 6191 árið 2016. Á Íslandi hefur fiskiskipum fækkað hlutfallslega miklu meir eftir að frjálst framsal aflahlutdeildar var lögleitt 1991. Það heitir hagræðing og var ein helsta ástæða þess hversu stjórn efnahagsmála gekk vel á tíunda áratug síðustu aldar.
Annað atriði sem þingmaðurinn nefnir er sú staðreynd að áður voru Bretar útflytjendur á fiski en nú flytji þeir inn 730 þúsund tonn. Ástæðan fyrir hruni sjávarútvegsins á Bretlandi var sú að á sama tíma og Bretar fóru inn í Evrópusambandið var rányrkja þeirra á miðum annarra þjóða stöðvuð með útfærslu landhelginnar. Íslendingar vita vel að þeir áttu þannig ríkari þátt í hnignun breskra fiskveiða en Evrópusambandið. Á hátíðarstundum lítum við svo á að einmitt þetta hafi verið einn af hátindum fullveldisbaráttunnar.
Samkvæmt reglum sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins byggist veiðiréttur alfarið á veiðireynslu. Sú regla er kennd við hlutfallslegan stöðugleika. Þannig héldu nokkrar Evrópuþjóðir veiðirétti á breskum miðum eftir að Bretar urðu aðilar. Engin þjóð hefur lengur veiðireynslu á Íslandsmiðum. Þar af leiðandi opnar sameiginlega fiskveiðistefnan ekki nokkurn rétt fyrir aðra en Íslendinga. Það þyrfti ekki einu sinni sérsamninga til að tryggja þá niðurstöðu.
Satt best að segja er það nokkuð langsótt kenning að ætla núverandi stjórnarflokkum að sækja um aðild að Evrópusambandinu þótt Morgunblaðinu sýnist það vera rökrétt framhald stjórnarstefnunnar. En jafnvel þótt sú spá ritstjóra Morgunblaðsins rættist myndi ekkert erlent fiskiskip fá hér veiðirétt á grundvelli sameiginlegu fiskveiðistefnunnar.
Tilvitnanafléttur geta verið gagnlegar og fróðlegar í rökræðum. En þegar þær eru með öllu slitnar úr tengslum við veruleikann verða þær oftast broslegar.