Tónlistarkonan Bríet Ísis Elfar hefur slegið í gegn hér á landi undanfarin misseri og óumdeilanlega verið í hópi vinsælustu tónlistarmanna landsins. Í viðtali við Smartland opnar Bríet sig en þar kemur meðal annars fram að hún hefur aldrei drukkið áfengi eða neytt vímuefna.
Bríet segir í viðtalinu að hún hafi aldrei haft neinn áhuga á að sljóvga hugann eða meðvitund sína sjálfviljug.
„Hvernig fólk talar um áfengi og vímuefni eða meðhöndlar það hefur ekki náð til mín. Það hefur alltaf fylgt því svo mikil pressa að byrja að drekka og mér finnst mikil menning fyrir því að geta ekki skemmt sér nema að vera fullur. Ég er bara ekki sammála því.“
Bríet segir einnig að ferillinn skipti hana svo miklu máli og það sé stór partur af því að hún drekkur ekki áfengi. Með því er hún þó ekki að segja að allir sem drekka sé ekki annt um sinn feril.
„Ég trúi því hins vegar að það geti truflað minn. Ég hef mjög gaman að því að djamma ég vil bara vera allsgáð þegar ég er að því,“ segir Bríet sem segir að móðir hennar hafi einnig haft sín áhrif. Hún hafi talað opinskátt um sína neyslu og áhrifin sem hún hafði á líf hennar.
Bríet segir enn fremur að ekkert sé að því að fólk neyti áfengi sér til skemmtunar. „Bara svo lengi sem þú hefur stjórn þá kemur það engum við.“