Bríet Ísis Elfar er án nokkurs vafa ein allra vinsælasta tónlistarkona landsins um þessar mundir. Bríet er í viðtali í nýjasta hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar þar sem hún ræðir meðal annars um tónlistina og ástina.
Vegna COVID-19-faraldursins hefur verið lítið um tónleikahald hér á landi á þessu ári og segist Bríet vera á ákveðinn hátt þakklát fyrir það. Ný plata Bríetar hefur vakið mikla athygli, en hún fjallar um ást og missi. Bríet fór býsna nálægt hjarta sínu við gerð plötunnar sem inniheldur nokkur af vinsælustu lögum ársins.
„Ég held ég gæti ekki sungið fyrir framan fólk núna. Ég væri bara grátandi. Þannig að ég held að tímasetningin hafi verið fullkomin. Ég hlakka mikið til að gera það og það mun gerast, en það er gott að það fái aðeins að bíða. Mér er búið að finnast yndislegt að fá að jafna mig aðeins, vera með kaffi uppi í rúmi og spjalla við mömmu. Maður fattar ekki hvað þetta er búið að vera mikið átak að gera plötuna og koma henni út. Maður er að klifra og klifra upp og svo hoppar maður niður og þá kemur eðlilega „crash” og maður þarf að leyfa því að líða hjá.“
Bríet segir líka í viðtalinu að hún hafi ekki endilega ætlað sér að verða tónlistarkona, heldur hafi eitt leitt af öðru og valdið því að nú sé hún á þeim stað sem hún er núna:
„Ég er þrettán ára þegar ég byrja að læra á gítar og var fengin til að spila „Off-Venue“ á Airwawes ári síðar. Eftir þá tónleika var fólk sem vildi vinna með mér og það fór af stað ferli sem er í raun enn í gangi. Mér leið aldrei eins og ég yrði að vera tónlistarkona, heldur fannst bara gaman að taka í gítarinn með pabba. En ég hef alltaf verið svo mikil já manneskja að ég segi bara já ef ég er beðin um að flytja tónlist og það hefur bæði gert mér gott og slæmt. Ég hef stundum hleypt fólki of nálægt mér, en að sama skapi hef ég fengið ótrúleg tækifæri.”