Fram undan eru breytingar á ríkisstjórninni. Þær gætu orðið minni háttar en þær gætu einnig orðið miklar. Ef ekkert stórt gerist núna, þá víkur Jón Gunnarsson fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur í júní en þinglok eru nú áætluð þann 9. júní. Vanalega dragast þau um einhverja daga, en þó ekki marga því að þingmenn geta ekki beðið eftir 100 daga sumarleyfi sínu og ráðherrar geta ekki beðið eftir að þingið fari heim. Þetta er gömul saga og ný. En það sem liggur í loftinu er að mikil þreyta einkennir stjórnarliðið og því er spáð að þessi stjórn haldi ekki lengi út í viðbót.
Ef Jón Gunnarsson þarf að víkja fyrir Guðrúnu verður ólga í Sjálfstæðisflokknum. Jón þykir vera duglegur og ósérhlífinn ráðherra og stuðningsmenn skilja illa hvernig hægt sé að réttlæta að öflugasta ráðherranum sé skipt út fyrir Guðrúnu sem því miður hefur ekki sýnt neina pólitíska takta á þeim 18 mánuðum sem hún hefur átt sæti á þingi. Hennar er enn sem komið er einungis minnst fyrir reglubundinn barlóm yfir því að vera ekki orðin ráðherra. Á stjórnmálasviðinu hefur hún ekkert sýnt ennþá sem kallar á aukin völd hennar. Fari Jón, þá tekur hún við embætti hans sem er dómsmálaráðherra –ekki beinlínis sérsvið Guðrúnar, frekar en Jóns, en hvorugt þeirra er lögfræðimenntað. Flokkurinn á slíku fólki á að skipa en athyglin beinist að Guðrúnu ef Jón fer.
Hermt er að Jón Gunnarsson sé mjög ósáttur við að þurfa að víkja úr ríkisstjórninni og hann muni þá segja af sér þingmennsku og láta gott heita enda kominn vel á sjötugsaldur. Þá fengi flokkurinn inn varamanninn Arnar Þór Jónsson sem er lengra til hægri en flokkurinn sjálfur. Talið er að hann ætti betur heima í Miðflokknum. Ekki mun þetta hjálpa Sjálfstæðisflokknum málefnalega eða í baráttu fyrir auknu fylgi sem hefur dalað mikið á sama tíma og Samfylkingin er að taka algera forystu sem stærsti flokkur landsins.
Einlægir sjálfstæðismenn eru mjög uggandi og sjá ekki margar leiðir til að bæta stöðuna. Flokkurinn er að mörgu leyti í pattstöðu hvað forystuna varðar. Bjarni Benediktsson hefur nú leitt flokkinn í fjórtán ár, lengur en nokkur annar að Ólafi Thors frátöldum. Vandinn við valdatíð Bjarna er sá að flokkurinn minnkar sífellt og er að verða fastur í kringum 20 prósent frá þeim 37 prósentum sem voru síðustu úrslit kosninga áður en Bjarni tók við. Þetta er hrun sem virðist ætla að verða varanlegt. Tilraunir sem hafa verið gerðar til að velta Bjarna af formannsstóli til að hefja nýtt upphaf hafa mistekist. Hann heldur fast í valdataumana – yfir hverfandi fylgi.
Samfylkingin hefur teflt sér inn í það tómarúm sem myndast hefur í íslenskum stjórnmálum og sýnir nú allt upp í 28 prósenta fylgi í skoðanakönnunum. Hvort það heldur fram að kosningum veit enginn. Hins vegar er víst er að allir stjórnarflokkarnir hafa tapað miklu fylgi samkvæmt skoðanakönnunum í allan vetur og flokkur forsætisráðherra vinstri stjórnarinnar þó sýnu mestu. Sá flokkur er í raunverulegri hættu á að hverfa af þingi í næstu kosningum. Forsætisráðherra sem nýtur einungis stuðnings 7 prósenta kjósenda með flokk sinn er ekki trúverðugur. Hvergi á Vesturlöndum væri það látið viðgangast. Nema hér.
Samfylkingunni stjórnar nú ung kona sem skyggir talsvert á þá miðaldra karlmenn sem stýra sumum hinna flokkanna, einkum þó Sjálfstæðisflokknum, Framsókn og Miðflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn er í þeirri stöðu að varaformaðurinn er ung kona með býsna mikla ráðherrareynslu, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir. Margir flokksmenn telja nú mikilvægt að gera breytingu strax. Þeir segja: Bjarni þarf að víkja án tafar og Þórdís að taka við.
Hvort svo íhaldssamur flokkur getur tekið slíka ákvörðun skal ósagt látið.
- Ólafur Arnarson