Brexit-gönuhlaupið hefur náð hámarki og nú byrja timburmennirnir

Breska þjóðin er klofin í herðar niður. Það kom skýrt fram á föstudag við formlega útgöngu Breta úr ESB. Helmingur landsmanna fagnaði á meðan hinn helmingurinn lýsti yfir sorg.

Þeir sem þora að horfast í augu við staðreyndir vita að útgangan leiðir til versnandi stöðu Bretlands á næstu árum. Hagvöxtur fer minnkandi, pundið fellur, atvinnuleysi eykst, kaupmáttur fólks minnkar og afkoma fyrirtækja versnar. Með þessu segist Boris Johnson ætla að sameina þjóðina að baki sér og blekkir landsmenn með tali um að nýtt blómaskeið sé að renna upp.

Öðru nær. Það eru dökk ský á lofti og vondir tímar framundan í Bretlandi. Fólk mun fljótlega hætta að hlusta á upphrópanir Borisar og krefjast efnda á yfirlýsingum sem hann mun ekki geta staðið við. Á sama tíma ætlar Verkamannaflokkurinn að losa sig við vonlausan leiðtoga. Þegar Corbyn verður horfinn á braut má Boris fara að vara sig. Lélegur og vonlaus Corbyn var hans besti bandamaður.

Bankar, sjóðir og alþjóðleg stórfyrirtæki eru á flótta frá Bretlandi yfir á meginland Evrópu með höfuðstöðvar sínar. Með því missir Bretland mikinn fjölda hálaunafólks af vinnumarkaði - og enn meiri skatttekjur.
Þessir aðilar eru að færa sig til Parísar, Frankfurt og Sviss öðru fremur.

Skotar eru órólegir og vilja vera áfram í ESB. Þeir munu nú þrýsta á um aðskilnað frá Bretlandi. Einnig eru Írar ósáttir. Boris Johnson mun ekki sameina þjóðina að baki sér með aukinni sundrungu.

Áður var talað um breska heimsveldið, þá kom samveldið, svo Stóra-Bretland. Nú stefnir allt í Litla-Bretland í boði Borisar.

Einhverjir telja sér trú um að ESB muni semja við Bretland um útgönguskilmála fyrir lok árs 2020. Það er af og frá. Fróðir menn telja að það muni taka mörg ár og á meðan mun þjóðin dingla í lausu lofti við fallandi gengi.

Þegar gönuhlaupið er í hámarki birtist grein eftir Styrmi Gunnarsson undir fyrirsögninni „Frelsun Bretlands“ þar sem vísað er til útgöngu Bretlands úr ESB. Ætla hefði mátt að þessi gamli ritstjóri væri betur að sér en þetta.

Bretland hefur einungis verið frelsað einu sinni. Það var þegar Bandaríkjamenn frelsuðu þjóðina frá Hitler í síðustu heimsstyrjöld.