BREXIT er að tortíma bresku samfélagi

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins fór mikinn um helgina um ágæti Bretlands og BREXIT og það hve ESB stæði illa og ætti sér vart framtíðarvon. Fullyrðingum sínum til stuðnings vitnaði hann í ritstjórnargrein breska íhaldsblaðsins, The Telegraph án þess þó að geta þess að The Telegraph studdi BREXIT fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2016 og hefur verið í fararbroddi herskárra andstæðinga aðildar Bretlands að ESB sem ekki víla fyrir sér afflutning staðreynda máli sínu til stuðnings.
Veruleikinn er annar en ritstjóri The Telegraph reynir að telja lesendum sínum trú um. Blekkingarskrif Telegraph eru þó mögulega fremur meinlaus vegna þess að flestir lesendur blaðsins búa í Bretlandi og þekkja raunverulegar afleiðingar Brexit.
Raunin er sú að neyðarástand ríkir í Bretlandi. Eftir að BREXIT úthýsti erlendu verkafólki, sem gegndi ýmsum störfum sem innfæddum hugnast ekki, er orðinn alvarlegur vöruskortur í landinu – vöruskortur sem ekki er hægt að rekja til hnökra á alþjóðlegum flutningakeðjum vegna Covid. Vandinn í Bretlandi er heimatilbúinn, fullkomið sjálfsmark. Flestir flutningabílstjórar, sem fyrir Covid sáu til vandræðalauss flæðis vara til allra horna Stóra-Bretlands, eru nú horfnir úr landi, enda var eitt helsta markmið BREXIT-sinna að stöðva frjálst flæði vinnuafls. Nú komast vörur ekki til neytenda.
Eldsneytisskortur er orðinn viðvarandi um allt Bretland en þó mestur í London og nágrenni höfuðborgarinnar. Þriðja heims ríki búa nú við meira eldsneytisöryggi en hið „fullvalda“ Bretland eftir BREXIT.
Hillur stórmarkaða standa tómar og kjöt- og fiskborðin eru ekki lengur til staðar. Í ljós hefur komið að fólkið sem vann í sláturhúsunum var flest erlent verkafólk, sem BREXIT hefur nú flæmt úr landi til „heilla“ fyrir stolta og „fullvalda“ Breta sem fyrir vikið eygja litla sem enga von um að fá jólasteikina á borðið þessi jólin.
Kannski getur Boris bjargað jólunum með því að láta breska herinn ganga í öll þessi störf og koma jólasteikinni í herfylgd til þjóðarinnar: Þá vaknar vitanlega spurningin, hver ætlar að verja fullveldi Bretlands ef herinn er bundinn við að sinna því sem frjáls markaður sinnti alveg ágætlega fyrir BREXIT? Hvað á svo að gera eftir jólin og nýárið? Fara aftur í vöruskort og eldsneytisþurrð? Eða binda breska herinn til frambúðar í því að koma í veg fyrir viðvarandi vöruskort og eldsneytisþurrð í þessu fyrrum heimsveldi, sem fyrir BREXIT var vestrænt allsnægtarríki.
- Ólafur Arnarson