Theresa May forsætisráðherra Breta flutti nokkuð góða ræðu í gær um Brexitklúður Breta. Hún er smám saman að átta sig á þeim ógöngum sem þjóð hennar hefur ratað í. Þessa ræðu mætti nefna drög að gleggri og skýrari hugmynd ríkisstjórnarinnar um innihald æskilegra samninga Breta varðandi útgöngu úr ESB.
Ríkisstjórn Breta hefur hingað til ekki leikið ærlega í taflinu við ESB um útgöngu. Theresa May er að átta sig á þeirri staðreynd að ESB hefur öll spil á hendi en Bretar hafa veika stöðu. Brexit var vanhugsað gönuhlaup og afleiðingarnar blasa nú við. Pundið veikist, hagvöxtur minnkar, atvinnuleysi eykst og bankar og önnur alþjóðleg stórfyrirtæki eru að færa sig frá Bretlandi til Þýskalands og Frakklands með evrópskar höfuðstöðvar sínar.
Í samningaviðræðum við ESB hafa Bretar hingað til reynt að leika refskák sem hefur engu skilað þeim. Staðan á taflborðinu er þannig að þeir eiga enga möguleika á sigri.
Theresa May er á þessum tímapunkti nauðbeygð til að gera stöðumat og freista þess að færa samningaferlið í annan farveg, þó ekki væri til annars en að reyna að bjarga vonlausri stöðu Bretlands í horn. Ræða hennar er staðfesting á því að nú er einungis um tvennt að velja:
Annað hvort er að slíta viðræðum og ganga frá samningaborðinu með ekkert eða að hefja viðræður við ESB á forsendum ESB undir kjörorðinu: “Eftirgjöf UK til ávinnings fyrir UK”.
Báðar leiðir eru niðurlægjandi fyrir Theresu May en hún á ekki aðra kosti. Láti hún skynsemi ráða þá fer hún í viðræður.
En verði breskur heimsveldishroki ofan á, þá stranda viðræðurnar og Bretland einangrast enn meira innan Evrópu sem gæti gert gamla stórveldið enn fátækara og veikara en nú er.
Hjá ESB er mönnum að mestu sama hvor leiðin verður valin. Þar á bæ eru menn alveg slakir.
Rtá.