Brexit er enn í uppnámi. Ekki er þó útilokað að breska þingið samþykki á elleftu stundu samninginn sem fyrir liggur við Evrópusambandið. Þá mun hann væntanlega gilda fyrir EES líka. Hitt gæti þó einnig gerst að fresturinn til útgöngu yrði enn framlengdur. Þá yrði allt óbreytt um sinn.
En útganga án samnings gæti líka orðið að veruleika. Ríkisstjórnir Íslands og Noregs hafa réttilega búið sig undir þann möguleika og kynntu nýlega bráðabirgðasamkomulag við Breta fari mál á þann veg.
Ríkisstjórnin fær prik fyrir að hafa gert slíkan samning. En hann sýnir hins vegar glögglega hversu mikil áhrif Brexit hefur á Ísland eins og aðrar þjóðir sem aðild eiga að innri markaði Evrópusambandsins. Menn komast ekki hjá því að horfast í augu við þá staðreynd að niðurstaðan er sú að staða Íslands gagnvart Bretlandi þrengist. Ísland verður verr sett en áður.
Fjórfrelsinu er hafnað í samskiptum við Ísland eins og önnur ríki
Vegna EES samningsins hafa Íslendingar, einstaklingar og fyrirtæki, notið fjórfrelsis innri markaðar Evrópusambandsins í Bretlandi. Þetta hefur tryggt frjálsa för fólks, frjáls vöruviðskipti, frjáls þjónustuviðskipti og frjálsa fjármagnsflutninga. Allt þetta hefur verið mikil lyftistöng í viðskiptum og margvíslegum öðrum samskiptum.
Komi nýi samningurinn til framkvæmda gilda ekki lengur, að því er Breta varðar, sömu reglur og áður um frjálsa för fólks, um frjáls þjónustuviðskipti og um frjálsa fjármagnsflutninga. Eftir stendur að vöruviðskipti verða óbreytt. Í þessu ljósi vekur athygli að bráðabirgðasamningurinn geymir engin ný sóknarfæri í lægri tollum í stað þess sem við missum á öðrum sviðum.
Annað verður ekki sagt en að þetta sé mikil afturför, ef af verður. En var við öðru og meira að búast?
Rangt stöðumat ríkisstjórnarinnar
Svarið við þessari spurningu fer sjálfsagt mest eftir því hvort menn hafa trúað stöðumati ríkisstjórnarinnar. Hún lofaði að Brexit fæli í sér gífurlega mörg og mikil ný tækifæri fyrir Ísland bæði í viðskiptum við Breta og reyndar aðrar þjóðir. Vonbrigði þeirra sem trúðu þessu stöðumati hljóta að vera mikil þegar niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin gat ekki einu sinni haldið hlutum í sama horfinu og fjarri því.
Yfirlýsingar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um fjölmörg ný og mikil tækifæri með Brexit hafa verið alveg samhljóma málflutningi Breska Sjálfstæðisflokksins, hægri arms breska Íhaldsflokksins og Trumps Bandaríkjaforseta. Allar aðrar ríkisstjórnir í Evrópu og mikill meirihluti stjórnmálamanna í Bretlandi hafa aftur á móti talað af raunsæi og viðurkennt að afleiðingar Brexit yrðu efnahagsleg afturför fyrir alla.
Í raun er nærtækara að dæma samninginn út frá þessu raunsæja mati á áhrifum útgöngunnar fremur en þeirri Brexithugmyndafræði sem verið hefur á vörum ríkisstjórnarinnar. Þessi samningur er augljóslega betri en enginn. En Ísland er verr sett en áður. Því getur ríkisstjórnin ekki breytt.
Fyrirboði undanhaldsins
Eftir fund forsætisráðherra með forsætisráðherra Breta í Osló fyrr í vetur var mikið gert úr því að búið væri að tryggja rétt Íslendinga í Bretlandi eftir Brexit. Þar var þó aðeins verið að semja um þá sem hafa notið núverandi samnings. Um leið var forsætisráðherra að staðfesta að í framtíðinni yrðu samskiptareglur landanna þrengri og frjáls för úr sögunni í því víðtæka formi sem gilt hefur til þessa. Þetta var því eins konar fyrirboði undanhaldsins.
Flest bendir til að forsætisráðherra hafi ekki einu sinni farið fram á að reglurnar um frjálsa för fólks yrðu varanlegar í áframhaldandi samskiptum Íslands og Bretlands.
Þegar litið er á bráðabirgðasamninginn frá öllum hliðum verður ekki dregin önnur ályktun en sú að ríkisstjórn breska Íhaldsflokksins hafi gengisfellt allar yfirlýsingar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um þau mörgu gullnu tækifæri sem biðu Íslands handan við Brexithornið.
Brexithugmyndafræðin byggir á því að stór ríki hafi undirtökin í tvíhliða samningum
Samningurinn eins og ríkisstjórnin lýsir honum bendir raunar til að Bretar hafi að mestu mælt einir fyrir um niðurstöðuna. Að því leyti varpar hann góðu ljósi á það hvers vegna fjölþjóðasamstarf er öruggara fyrir smáríki en tvíhliða samningar. Stærri aðilinn hefur jafnan undirtökin í tvíhliða samskiptum. Það er þekkt lögmál.
Kjarninn í Brexithugmyndafræðinni er einfaldlega sá að Bretar geti í krafti þess að vera fimmta öflugasta efnahagsveldi heims nýtt þá stöðu betur gagnvart minni ríkjum í tvíhliða samningum en í fjölþjóðasamstarfi eins og Evrópusambandinu. Pólitík Trumps Bandaríkjaforseta byggir á sömu hugsun. Af hverju ætti Ísland að enduróma þetta? Brexithugmyndafræðin og hagsmunir Íslands fara einfaldlega ekki saman.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur gerði tvenns konar mistök við gerð bráðabirgðasamkomulagsins. Annars vegar byggði hún á óraunsæju stöðumati um gullin tækifæri. Hins vegar lýsti hún aldrei opinberlega skilgreindum samningsmarkmiðum. Hvort tveggja er veikleikamerki. Þetta tvennt þarf því að breytast eigi að bæta stöðu Íslands að einhverju marki í næstu lotu.