Brennandi hús framsóknar

Fráfarandi forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, var svo smekklegur að tala um Evrópusambandið sem “brennandi hús” þegar hann kom fram í síðustu viðræðuþáttum sjónvarpsstöðvanna dagana fyrir kosningar.

Þessi frasi hefur svolítið verið notaður af Morgunblaðinu og Heimsýn á undanförnum mánuðum. Fáir hafa svo sem kippt sér upp við það. Oft er gripið til innantómra slagorða þegar engin rök finnast. Evrópusambandið er nógu góður vettvangur fyrir stórþjóðir eins og Þýskaland, Frakkland og margar aðrar sem una þar hag sínum vel. Sama gildir um smáþjóðir eins og Luxemburg, Möltu, Danmörku og Írland, svo dæmi séu tekin. Þrátt fyrir það telja menn uppi á Íslandi sér sæmandi að tala um þessi öflugu samtök sem “brennandi hús”. Morgunblaðið hefur verið “brennandi hús” afkomulega séð um árabil. En þar eru eldar ávalt slökktir með þeim hætti að bankar fella niður skuldir upp á milljarða og sægreifar koma með meira rekstrarfé til að standa undir tapinu. Brunaliðið kemur ávalt til hjálpar.

Það kemur svo úr allra hörðustu átt þegar formaður Framsóknarflokksins tekur upp svona ósmekklegar líkingar. Ef einhvers staðar er hægt að tala um “brennandi hús” þá er það hjá Framsóknarflokknum sem logar í átökum milli núverandi og fyrrverandi formanna á sama tíma og þjóðin hefur hafnað flokknum í kosningum þar sem hann tapar 11 þingmönnum af 19 sem hann hafði. Flokkurinn fer úr 24% fylgi í 11% í kosningunum, tapar meira en helmingi kjörfylgis. Það væri ólíkt smekklegra hjá formanni sem leiddi flokkinn í þessari niðurlægingu að spara sér fimmaurabrandara úr smiðju Morgunblaðsins.

Því verður ekki trúað upp á Sjálfstæðisflokkinn að hann reyni að halda Framsókn við völd í landinu á nýbyrjuðu kjörtímabili þó þá dreymi eflaust um það. Framsóknarflokknum var algerlega hafnað af kjósendum. Þau skilaboð voru alveg skýr. Kjósendur krefjast þess að Framsóknarflokknum verði gefið langt frí frá ríkisstjórnarstarfi. 

Fjögur ár til að byrja með. Þeim veitir ekki af þeim tíma til að slökkva eldana í því “brennandi húsi” sem Framsóknarflokkurinn er.