Brauðið sem er himnasending fyrir Ketófólkið

Janúar er mánuðurinn sem margir hverjir vilja núll stilla sig og huga vel að mataræðinu og finna það sem hentar þeim best. Anna Björk Eðvarðsdóttir formaður Hringsins og sælkera- og matarbloggari með meiru er á ketó mataræði og er iðin að finna sér sælkera uppskriftir. Brauð er eitt af því sem henni finnst erfitt að horfa á eftir og nú er hún búin að finna uppskrift sem henni líkar mjög vel og gera að sinni. Við fengum Önnu Björk til að deila með okkur uppskriftinni af brauðinu sem heitir einfaldlega LKL brauðið.

„Hálfur heimurinn og amma hans eru að spara við sig kolvetni, eru á LKL eða ketó mataræði og ég er auðvitað ein af þeim. Ég elska brauð, því miður elskar það mig ekki, ég þoli ekki mikið mjöl. Ég saknaði þess að fá ekki brauð svo það var eins og himnasending að detta niður á uppskrift sem mér fannst góð, með ekki of miklu eggjabragði eins og er af svo mörgum LKL brauðum. Það er stappfullt af trefjum og góðum vítamínum. Ég er búin að laga uppskriftina mínum þörfum og er mjög sátt við útkomuna. Brauðið geymist vel í ísskáp, alveg í viku, svo er auka bónus að það er mjög gott að rista það og hafa með tebollanum á morgnana.“ Hægt er að fylgjast með matarblogginu hennar Önnu Björk á bloggsíðunni hennar Anna Björk matarblogg

LKL brauð að hætti Önnu Bjarkar

4 stór egg

1 bolli möluð hörfræ (Milled flax seed)

3 msk. vatn

½ bolli möndlumjöl

1 tsk. lyftiduft (má vera rétt rúmlega)

½ tsk. salt

1 msk. kúmen (má sleppa)

smjörklípu til að smyrja formið með

Byrjið á því að hita ofninn í 200°C. Smyrjið álform eða það form sem þið viljið nota að innan smjöri. Brjótið eggin í skál og þeytið með písk með vatni og salti. Setjið mjölið, lyftiduftið og kúmenið í aðra skál og blandið vel saman með höndunum. Hellið eggjunum út í mjölið og blandið saman þar til það er rétt samlagað, ekki hræra óþarflega mikið í því. Hellið deiginu í formið og bakið í 22-25 mínútur. Það eru sjálfsögð réttindi bakarans, að fá eina sjóðheita brauðsneið með smjöri eftir erfiðið.

Ef þið notið álform eins og Anna Björk gerir, er upplagt að nota það oft og þvo það milli bakstra. Með því má sporna gegn sóun.

Hægt er að sjá aðgerða röðina hér í myndasafninu.

M&H LKL brauð 1.jpg

Hráefnið sem til þarf. *Myndir aðsendar.

M&H LKL brauð Anna Björk 2.jpg

M&H LKL Brauð Anna Björk 3.jpg

Eggin pískuð vel saman.

M&H - LKL brauð Anna Björk 4.jpg

Þurrefnin sett saman í skál og blandað saman.

M&H LKL Brauð Anna Björk 5.jpg

M&H LKL Brauð Anna Björk 7.jpg

Eggjunum blandað saman við þurrefnin.

M&H LKL Brauð Anna Björk 6.jpg

Álformið/formið smurt vel að innan með smjöri.

M&H -LKL brauð Anna Björk Eðvarsd.jpg

Brauð komið út ofninum dúmjúkt og ljúffengt.

M&H LKL Brauð Anna Björk 10.jpg

Njótið vel.