Brauð & leikar - að njóta ógæfu annarra


Í tilkynningu frá Lögreglunni í Reykjavík vegna brunans á Grettisgötu í gær segir að lögreglan harmi það framferði almennings að hafa fjölmennt á brunastað til að berja hamfarirnar augum. Fólk hafi með því virt lokanir lögreglu að vettugi og truflað björgunarstörf. Slíkt sé ólíðandi og í raun skammarlegt.

Í frægum bruna í Skeifunni ekki alls fyrir löngu skapaðist svipað vandamál.

Og þegar sjúkraflugvél Mývatns hrapaði skammt frá Akureyri fyrir nokkrum árum var fremur óhuggulegt fyrir mig sem fréttamann að komast varla leiðar minnar í vinnunni vegna ásóknar almennings að fá harmleikinn beint í æð með eigin augum.

Vitaskuld kemur til greina að afgreiða svona mál sem illa ígrundaða og marklausa forvitni. En það gæti líka verið einnar messu virði að skoða hvort draga megi einhverja samfélagslega ályktun af þessum atvikum.
Það Ísland sem mér hefur þótt vænst um tengist þjóðarskilningi og þjóðarsamkennd með þeim sem verða illa úti. Það hefur bæði átt við um hamfarir af mannavöldum sem og náttúruhamfarir. Þannig má minnast allra hjartahlýju þjóðarátakanna, þegar íslenska þjóðin hefur sem ein manneskja staðið heil í samúð, hjálpsemi og stuðningi þegar meiriháttar slys hafa orðið hér á landi. Sjóslys, snjóflóð, brunar. Allt hefur miðað að einu. Ef við höfum safnast saman vegna ófara hefur það einkum verið til björgunarstarfa.
Hvað er að gerast núna?

Er komin upp svipuð stemmning og á tímum Rómverjanna þegar hugtakið brauð og leikar eða „Panem et circenses“ varð til? Brauð og leikar sem valdatæki, Brauð og leikar sem birtingarmynd kúgaðra samfélaga hafa orðið yrkis- og umhugsunarefni fjölmargra skálda og heimspekinga og er engin tilviljun. Margir kannast við Hungurleikana, söguna sem hefur verið sögð á hvíta tjaldinu þar sem svangur lýðurinn nærist á ógæfu annarra og fær í leiðinni smávald yfir örlögum hinna ógæfusömu.Að verða vitni að ógæfu annarra getur slegið á okkar eigið böl eina örskotsstund. Minna má á að aftökur voru mest sóttu \"skemmtanir\" alþýðunnar í eina tíð. Í Rómarveldi sáu valdhafar almenningi fyrir ókeypis korni sem ekki dugði þó til að seðja fátæka maga. Svo var efnt til ofbeldisfullra \"skemmtiatriða\". Almenningur lærði að unna þeim leikum sem lýsir firringu mannshugans, lýsir þeim ömurleika sem getur heltekið hugskotin og tengist stundum ytri aðstæðum. Kúgun virðist vera ein lykilbreytan í því hvort við sækjum í ógæfuna ógæfunnar vegna eða hvort við snúum okkur að henni til að uppræta hana.
Sagt hefur verið að sjónvarpið hafi tekið við af spilltum valdhöfum sem áður sáu sér hag í að standa fyrir svona leikum. Nú síðast sé Internetið notað í vaxandi mæli til að standa fyrir sjóvinu. En í gær var vettvangurinn kannski Grettisgata?
Vonandi er maður að draga of stórar ályktanir af því framferði almennings í gærkvöld sem lögreglan bendir réttilega á að hafi verið skammarlegt. En hungur í ógæfu annarra ætti á öllum tímum að vera umhugsunarefni. Á góðum tímum ætti mennskan í heiminum að vera yfir slíka lágkúru hafin.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)