Móðir í áfalli: börnin komu heim með tattú eftir sýningu í gamla bíó - „íhuga að kæra til lögreglu“

Móðir tveggja barna sem fengu húðflúr á tattú ráðstefnu er afar ósátt og íhugar að kæra málið til lögreglu. Var móðirin í áfalli að fá börnin heim með húðflúr sem ekki hafði verið gefið leyfi fyrir.  The Icelandic Tattoo Convention stendur yfir alla helgina og fer fram í Gamla bíó. Hefur hátíðin vaxið ár frá ári. Ráðstefnuna sækja húðflúr listamenn frá öllum heimshornum og bjóða fram þjónustu sína. Að sögn móðurinnar voru börnin hvorki beðin um skilríki né leyfisbréf frá foreldri.

„Þau fóru þarna í dag og fengu bæði stórt tattú. Hvorugt þeirra hefur náð 18 ára aldri,“ segir móðir barnanna í samtali við Hringbraut en um unglinga er að ræða en börn samkvæmt lögum.

„Það er ótrúlegt að hægt sé að standa fyrir ráðstefnu eins og þessari og bjóða tattú á niðurgreiddu verði og að börn séu hvorki spurð um skilríki né vottorð frá foreldrum er fáránlegt. Þetta er lífstíðarskuldbinding,“ segir móðirin og bætir við: „Ég er alvarlega að íhuga að kæra þetta mál til lögreglu.“

Samkvæmt umboðsmanni barna er algjörlega óheimilt að einstaklingur undir lögaldri sé húðflúrað án þess að hafa skriflegt leyfi frá foreldri eða forráðamanni barnsins. Þá ber rekstraraðila að afla vottorðs frá landlækni. Óheimilt er að flúra, húðgata eða beita nálarstungu á einstaklingi undir 18 ára aldri nema með skriflegu leyfi forráðamanns. Framvísa skal skilríkjum ef vafi leikur á um aldur.

Samkvæmt öruggum heimildum Hringbrautar voru fleiri einstaklingar undir 18 ára aldri sem einnig fengu húðflúr á sýningunni án samþykkis foreldra eða forráðamanna.