Duglitlir veifiskatar eru lítt til forystu fallnir. Einhvern veginn hefur það þó trekk í trekk orðið hlutskipti fyrrum heimsveldis í okkar heimshluta á seinni árum að velja slíka menn í leiðtogahlutverk. Einhver mestur ógæfumaður breskrar stjórnmálasögu er án efa David Cameron, sem fórnaði heill og velferð Bretlands fyrir forsætisráðherrastólinn. Hann lagði framtíð þjóðar sinnar að veði fyrir persónulegan metnað, tapaði og lét sig hverfa.
Nú eru hörmulegar afleiðingar útgöngu Bretlands úr ESB rétt að verða sýnilegar. Núverandi forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, er flautaþyrill og lýðskrumari sem svífst einskis fyrir persónulegan framgang. Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um BREXIT var hann á báðum áttum en ákvað svo að leggjast á sveif með útgöngusinnum vegna þess að hann áttaði sig á að útgangan yrði pólitískur banabiti Camerons forsætisráðherra og gæti greitt leið hans sjálfs í stólinn. Gekk það eftir að lokum. Johnson gekk hart fram í áróðursstríðinu um BREXIT og lofaði nánast paradís á jarðríki í Bretlandi utan ESB.
Þegar menn gefa innistæðulaus loforð um gull og græna skóga kemur að skuldadögum fyrr eða síðar. Útgangan úr ESB átti að sögn að tryggja frjálst og fullvalda Bretland, sem nyti alls hins góða sem væri af ESB að hafa án þess að undirgangast neinar skuldbindingar. Eitt aðalbaráttumálið var að loka landamærum landsins til að geta lokað á innstreymi útlendinga, aðallega frá fyrrum austantjaldsríkjum og löndum í Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafs. Því var haldið fram að þetta fólk tæki störf af Bretum, jafnframt því sem það væri afætur sem sligaði félagslegt bótakerfi landsins.
Nú hefur landamærunum verið lokað. Útlendingarnir eru hættir að streyma inn. Þá kemur í ljós að þetta fólk var ekki byrði á kerfinu. Vinnuafl innflytjenda var mikilvægt tannhjól í vélinni sem knýr breska hagkerfið. Nú, þegar Boris Johnson og öðrum einangrunarsinnum hefur tekist að loka þetta fólk úti, birtist sú staðreynd að flutningakerfi landsins er í molum vegna þess að innflytjendur voru burðarás þess kerfis. Af þeim sökum er orðinn alvarlegur skortur á ýmsum nauðsynjavörum víða um Bretland. Neyðarástand ríkir vegna þess að eldsneytisdreifing hefur molnað niður og ríkisstjórn Johnsons neyðist til að leita á náðir breska hersins til að dreifa eldsneyti um landið til að hjól hagkerfisins stöðvist ekki með öllu.
Vöruskortur er alvarlegur eins og sést af myndum af tómum hillum stórmarkaða í þessu vestræna lýðræðisríki. Þá stefnir í að Bretar fái alls ekki jólasteikina í ár vegna þess að ekki tekst að manna sláturhús – jú, það voru víst einmitt innflytjendur sem þar störfuðu. Kannski verður herinn settur inn í sláturhúsin en kannski skiptir það engu máli þar sem engir vörubílstjórar eru til að dreifa kjötinu fyrir jólin – nema náttúrlega herinn fari í það líka. Já, sannkölluð paradís á jörð.
Vitanlega skall á heimsfaraldur eftir BREXIT, þótt ekki hafi verið sýnt fram á orsakasamhengi þar. Covid veldur búsifjum alls staðar en skýrir ekki nær fullkomið niðurbrot samfélags eins og við sjáum í Bretlandi. Öðrum löndum gengur bærilega að bregðast við Covid þótt kostnaður sé óneitanlega mikill. Neyðarástandið í Bretlandi er sjálfskaparvíti þjóðar sem ítrekað kýs yfir sig tóma vitleysu.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins finnur til með Boris Johnson, vitnar í hann og kallar neyðarástandið í Bretlandi „sára vaxtaverki“ eftir BREXIT. Hlýtur það að vera Boris huggun harmi gegn að eiga hauk í horni í ritstjóranum í Hádegismóum þegar hans eigin landsmenn snúast gegn honum og óreiðu hans. Boris getur treyst því að ritstjóri Morgunblaðsins er enginn veifiskati. Hann stendur með sínum mönnum. Boris getur bara spurt Donald Trump.
- Ólafur Arnarson